Framsýni, forvarnir og friðun

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert

Stjórnmálin eiga að einkennast af framsýni og forvörnum. Vinna stjórnmálamanna á helst að felast í því að undirbyggja betra samfélag en ekki að vera viðbrögð manna í fáti við orðnum hlut. Hvort sem um er að ræða fjármálakreppu, umhverfisvá eða yfirfulla spítala. Þetta kom fram í ræðu Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, í þinginu í kvöld. 

Hún sagði brýnt að vinna að umhverfis- og náttúruvernd því þessi mál þyldu enga bið lengur. Hún nefndi fyrst loftslagsbreytingar af mannavöldum en afleiðingar þeirra eru margvíslegar, meðal annars hlýnandi sjór við Íslandsstrendur, súrnun sjávar og bráðnandi jöklar. Draga verður úr auðlindasóun og losun gróðurhúsalofttegunda með öllum tiltækum ráðum. Til þess að unnt verði að ná því verði ráðherrar að vinna saman. 

Þrátt fyrir að hægt hafi gengið í þessum málaflokki, að hennar mati, bindur hún miklar vonir við Parísarsamkomulagið.  

Umhverfis­- og náttúruvernd er leiðarstef í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar og mun skipa veigamikinn sess, sagði Björt. Í því samhengi benti hún á að ekki verði efnt til ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju. 

Það er þó alveg ljóst að allir ráðherrar verða að vinna saman að því að uppfylla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum svo Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

„Ég mun fylgja því fast eftir að ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu verði gagnsæ. Eigendastefna verður gerð fyrir Landsvirkjun þar sem meðal annars verði markmið um að hámarka virði orkunnar og að fyrirtækið starfi í góðri sátt við íslenska náttúru og landsmenn,“ sagði Björt. Hún mun einnig beita sér fyrir því að friða Kerlingafjöll og Þjórsárver.

„Það heyrist stundum að Ísland sé svo lítið í samhengi þjóða að okkar athafnir skipti ekki svo miklu máli. Ég er ósammála. Allt skiptir máli. Lítið samfélag í gjöfulu landi hefur alla burði til að bregðast hraðar við en þau sem stærri eru. Við getum og eigum að setja okkur þau markmið að vera í fararbroddi á alþjóðavettvangi hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, í náttúruvernd og í að aðlaga okkur að lágkolefnishagkerfi framtíðarinnar,“ sagði Björt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert