„Frelsi fylgir ábyrgð“

Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar.
Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar.

Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, gerði mikilvægi frjálslyndra gilda og utanríkismál að aðalumræðuefni sínu á Alþingi í kvöld.

„Sú stefna sem mörkuð hefur verið í  stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sú frjálslyndasta sem nokkru sinni hefur verið boðuð í upphafi kjörtímabils hér á landi,“ sagði Jóna Sólveig meðal annars. „Þetta er sáttmáli sem allir frjálslyndir Íslendingar geta verið stoltir af.“

Forréttindi að vinna frjálslyndum málum brautargengi

Kvaðst hún full þakklætis fyrir að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp í lýðræðisríki eins og Íslandi og kvaðst þakklát fyrir að búa í ríki þar sem „frelsi einstaklingsins og mannréttindi eru í hávegum höfð.“ Sagði Jóna Sólveig það vera forréttindi að fá tækifæri til að vinna frjálslyndum málefnum brautargengi á tímum þegar frjálslyndi eigi undir högg að sækja í heiminum.

Segir hún mikilvægt að hafa í huga að frelsi fylgi ábyrgð og því þurfi Alþingi m.a. að veita aðhald í ríkisfjármálum og fara vel með almannafé og búa þurfi í haginn fyrir mögulega niðursveiflu í efnahagsmálum. „Sýnum metnað og einsetjum okkur að komast vel undan vetri með skýrri framtíðarsýn og vandaðri áætlanagerð,“ sagði Jóna Sólveig.

Ísland geti ekki þrifist í einangrun

Þá sagði hún jafnframt að ekki síður væri mikilvægt að hafa framtíðarsýn í utanríkismálum en Jóna Sólveig er alþjóðastjórnmálafræðingur að mennt. „Ísland er eyland en alls ekki í þeirri merkingu að það geti þrifist í einangrun,“ sagði Jóna Sólveig.

„Nánast allir gildandi milliríkjasamningar sem Ísland á aðild að hafa verið gerðir og eru framkvæmdir með þátttöku utanríkisþjónustunnar, en hún er gríðarlega mikilvægt tæki til að efla sóknina og hagsmunagæsluna á alþjóðavettvangi.“ Segir Jóna að sem smáríki verði Ísland, öðrum löndum betur, að fylgjast með þróun í alþjóðamálum.

„Smáríki á borð við Ísland geta ekki varið fullveldi með efnahagslegu eða hernaðarlegu bolmagni. Ísland getur aðeins varið fullveldi sitt með trúverðugleika,“ sagði Jóna Sólveig undir lok ræðu sinnar. Telur hún Ísland þurfa að halda áfram að byggja upp ímynd landsins á alþjóðavettvangi en á sama tíma að byggja upp raunsæja sjálfsmynd landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka