Katrín Jakobsdóttir minnist Birnu

Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hóf ræðu sína á Alþingi í kvöld með því að ræða samhug og samstöðu þjóðarinnar vegna máls Birnu Brjánsdóttur en umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fara fram á Alþingi. 

„Ég vil byrja á því að taka undir með hæstvirtum forsætisráðherra um þann samhug og samstöðu sem þjóðin hefur sýnt að undanförnu eftir að ung kona var svipt framtíð sinni með óhugnanlegum hætti,“ sagði Katrín. „Við skulum öll standa saman gegn ofbeldi og tryggja að unga fólkið okkar fái að eiga framtíð sína í friði."

„Ég segi að við eigum að byggja brýr“

Vakti Katrín máls á því í ræðunni að ófriður ríkti víða í heiminum, ekki síður í kjölfar óvæntra kosningaúrslita sem mörgum hafi komið í opna skjöldu. „Þau endurspegla vaxandi gjá milli ólíkra hópa í samfélögum vestan hafs og austan,“ sagði Katrín. Telur hún stjórnmálamenn geta gert hvort tveggja; „þeir geta byggt múra eða þeir geta byggt brýr. Ég segi að við eigum að byggja brýr“, sagði Katrín en til þess þyrfti að ráðast í mörg stór verkefni.

Meðal annars segir Katrín að tryggja þurfi jöfnuð og félagslegan stöðugleika, ráðast í aðgerðir gefn loftslagsbreytingum og að undirbúa vinnumarkaðinn til að takast á við tækniþróun, en þessi verkefni kalli á kerfisbreytingar.

Segir stjórnarsáttmálann í 1920-stíl

„Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við er ekki ríkisstjórn utan um slíkar breytingar,“ sagði Katrín. „Stjórnarsáttmálinn er í besta 1920-stíl og undirritaður af þremur karlmönnum þrátt fyrir batnandi kynjahlutföll á þingi.“ Sagði hún í framhaldi af því að valdamisrétti kynjanna birtist „ekki aðeins í hausatalningu á þingmönnum“, heldur líka því hvar konur er að finna í forystu.

Þá telur Katrín boðaða ríkisfjármálastefnu fjármálaráðherra vera íhaldssama og stefnu ríkisstjórnarinnar sömuleiðis. 

Gagnrýnir hún forsætisráðherra fyrir að vilja ekki afla tekna til að byggja upp velferðar-, heilbrigðis og menntakerfi. „Ef aðhald er sett á útgjöld í velferðarmálum í stað þess að hækka skatta á auðmenn er í raun verið að hækka álögur á venjulegt fólk fremur en þá ríkustu,“ sagði Katrín.

„Hughrifin, ágætu landsmenn, birtast líklega í undirskriftum 86 þúsund Íslendinga sem kröfðu stjórnmálamenn um aukin framlög til heilbrigðismála,“ bætti Katrín við. „Það er áskorun að tryggja að efnahagsbatinn skili sér til allra hópa en ekki aðeins ríkustu hópanna í samfélaginu,“ sagði Katrín síðar í ræðunni.

„Hér eru það ríkustu tíu prósentin sem eiga þrjá fjórðu alls auðs,“ sagði Katrín og bætti við að hún teldi ekki er ólíklegt að skattalækkanir og leiðréttingar síðustu þriggja ára hefðu aukið enn á þá misskiptingu og ekki gefi stjórnarsáttmálinn merki um breytingar á því sviði.

Bindur vonir við Björt og tekur undir með Þorgerði

Katrín fór víða í ræðu sinni og ræddi til að mynda áskoranir í ferðaþjónustu og að auka þyrfti fjárfestingu til menntunar og bæta félagslegan stöðugleika.

Þá segist hún binda vonir við nýjan umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttur, sem hefði boðað aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. „Við treystum því að mjög fljótlega komi fram tímasett aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem miði við hið minnsta 40% samdrátt í losun fyrir 2030.“ sagði Katrín.

Þrátt fyrir mikla gagnrýni á stefnu nýrrar ríkisstjórnar, lýsti Katrín yfir stuðningi sínum við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna sjómannadeilunnar. 

„Ég leyfi mér þó að lýsa stuðningi við nýjan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur sagt að ekki verði sett lög á verkfall sjómanna enda muni slík ráðstöfun ekki vera líkleg til að skapa sátt um greinina. Ég er hjartanlega sammála hæstvirtum ráðherra um það,“ sagði Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka