Ráðherrar birti mikilvægar upplýsingar

Ásta Guðrún Helgadóttir á Alþingi í kvöld.
Ásta Guðrún Helgadóttir á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagði í umræðum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra, að Bjarni Benediktsson hafi í starfi sínu sem fjármálaráðherra leynt upplýsingum sem fram komu um eignir Íslendinga í skattaskjólum í aðdraganda kosninga.

„Það er því miður ekkert sem gerir ráðherrum skylt samkvæmt íslenskum lögum að birta mikilvægar upplýsingar að eigin frumkvæði. Þetta er mál sem við Píratar munum berjast fyrir á þessu kjörtímabili, rétt eins og því síðasta,“ sagði Ásta Guðrún.

„Það er nefnilega þannig að í siðuðum lýðræðisríkjum er það kallað spilling þegar stjórnmálamenn beita opinberu embætti í þágu persónulegra og pólitískra hagsmuna. Þá er það kallað lygi þegar menn fara vísvitandi með rangt mál.“

Hún ræddi einnig um nýju ríkisstjórnina og nefndarsetu þingmanna. „Að byrja þingið á því að neita minnihlutanum um nefndarsetu sem endurspeglar þingstyrk okkar, eru ekki ný eða fersk vinnubrögð, heldur afturför og spilling,“ sagði hún og bætti við: „Því spilling snýst ekki einungis um misbeitingu valds heldur um atferli sem dregur úr trausti á stofnunum og reglum samfélagsins. Sérhagsmunagæsla hins ofurnauma þingmeirihluta er gott dæmi um þetta.“

Ásta minntist á aðstæðurnar á Alþingi og sagði að verið sé að búa til aðstæður þar sem þingmenn séu „sífellt að keyra á yfirsnúningi vegna skipulagsleysis og óöryggis um störf þingsins, of lítils undirbúningstíma þegar fjallað er um mál í þingsal eins og flýtiafgreiðsla fjárlaga fyrir jól er til vitnis um, en eins og háttvirtur forsætisráðherra nefnir þá líður fæstum vel á yfirsnúningi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka