Vaxandi ójöfnuður

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar

Hlýnun loftslags og vaxandi ójöfnuður í heiminum tengjast órjúfanlegum böndum og eru helstu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Þetta kom fram í ræðu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í kvöld. 

Allt of margir fjármagnseigendur hafa hagnast á mengandi verksmiðjuframleiðslu á kostnað okkar allra og náttúrunnar, sagði Rósa Björk og benti á að saman þyrftum við að sameinast um að sporna gegn þessari þróun. Leiðin í þá átt er að taka Parísarsamkomulagið alvarlega. 

Ójöfnuðurinn hefur vaxið hér á landi. Nefndi hún sem dæmi að ríkasti fimmtungur landsmanna á 87 prósent af öllu eigin fé í landinu. „Hinir ríku halda áfram að verða miklu ríkari á Íslandi,“ sagði Rósa og nefndi aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á borð við leiðréttinguna. Í því samhengi benti hún einnig á að ójöfnuður hafi víðtæk samfélagsleg áhrif og vísaði meðal annars til barna efnaminni foreldra sem búa við skort. Hún nefndi að um 4 til 6 þúsund íslensk börn búa við skort og fátækt. Ekki væri hægt að vera róleg og stillt yfir því. Ekki væri hægt að vera rólegur á meðan ójöfnuður færi vaxandi í íslensku samfélagi. Hún krafðist aðgerða í þessum málum.       

Rósa Björk sagði að íslenskt samfélag ætti ekki að vera kyrrstöðusamfélag afturhalds og íhalds, heldur á að vera á stöðugri hreyfingu og í framþróun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka