„Vonandi hafa þeir lært af sinni villu“

Sigurður Ingi Jóhannsson á Alþingi í kvöld.
Sigurður Ingi Jóhannsson á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni á Alþingi í framhaldi af stefnuræðu forsætisráðherra að Framsóknarflokkurinn hafi fyrir kosningarnar 2013 sett tvö veigamikil atriði á oddinn sem urðu til þess að hlutirnir fóru að ganga betur á Íslandi.

„Hið fyrra var hin almenna aðgerð til að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán sem bætti eiginfjárstöðu margra stórkostlega. Er nú svo komið að skuldsetning íslenskra heimila er með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndum en var áður hæst allra,“ sagði Sigurður Ingi.

„Hitt var losun hafta sem virðist ætla að takast eins vel og björtustu vonir stóðu til. Þessi tvö risastóru mál lögðu meðal annars grunninn að aukinni hagsæld á Íslandi. Það er ágætt fyrir nýja ríkisstjórn að hafa það í huga.“

Sigurður Ingi sagði að þeir sem töldu Íslandi best borgið með því að greiða skuldir „óreiðumanna“ í útlöndum; Icesave, og með því að ganga í Evrópusambandið, ættu að hugsa sinn gang.

„Það er munur á þeim sem vildu rétta íslenskum heimilum hjálparhönd með leiðréttingunni, og sækja fé sérstaklega til þess, og þeim sem endilega vildu að ríkissjóður greiddi tugmilljarða til að þóknast útlendum kröfuhöfum. Það má eiginlega teljast með nokkrum ólíkindum að slíkir höfðingjar skuli nú stjórna landinu. En vonandi hafa þeir lært af sinni villu.“

Hann bætti við að  samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu sé fjórðungur landsmanna ánægður með nýja ríkisstjórn og nefndi að ríkisstjórnin njóti mikillar hylli hjá þeim sem hafa háar tekjur.

Í ræðunni greindi Sigurður Ingi einnig frá því að hægt hefði verið að mynda annars konar ríkisstjórn sem hefði breiðari skírskotun en núverandi stjórn. „Forsætisráðherra var mæta vel kunnugt um það. En sá á kvölina sem á völina og 25% ánægja er niðurstaðan með það val.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka