Foreldrum tilkynnt um lús í MR

Skólayfirvöld í MR hafa haft þann hátt á að láta …
Skólayfirvöld í MR hafa haft þann hátt á að láta foreldra vita ef lús kemur upp í skólanum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Það er orðinn árviss viðburður í mörgum grunnskólum að tilkynning sé send heim með nemendum um að lús hafi komið upp. Ekki er jafnalgengt að foreldrar menntaskólanema fái send slík bréf. Foreldrar nema í Menntaskólanum í Reykjavík fengu þó slíka tilkynningu senda frá rektor í morgun.

„Því miður hefur komið upp tilvik þar sem nemandi hefur greinst með lús í IV. bekk í MR,“ sagði í tilkynningu frá Yngva Péturssyni rektor MR og meðfylgjandi voru leiðbeiningar um hvernig mætti minnka líkur á að lúsin nái að dreifa sér.

„Þetta skýtur upp kollinum annað lagið,“ segir Yngvi í samtali við mbl.is. „Það eru náttúrulega grunnskólabörn á heimilinu og svo eru þessir krakkar að æfa íþróttir í félögum og lúsin gengur á milli.“ Hann kveðst þó telja lúsina oftast til komna út af yngri systkinum.

Skólayfirvöld í MR hafa haft það verklag á þegar lús kemur upp að láta foreldra vita og segir Yngvi hafa gengið vel í gegnum tíðina að ráða niðurlögum hennar. „Við höfðum samband við hjúkrunarfræðing og sendum ráðleggingar um hvernig er best að bregðast við.“

Mikið álag á nemendur í nýja kerfinu

Fyrsti árgangur nemenda Menntaskólans í Reykjavík er nú að taka stúdentsprófið á þremur árum og segir Yngvi þeim ganga vel. „Þessi árgangur er að standa sig vel,“ segir Yngvi og játar að mikið álag sé á nemendur í nýja kerfinu.

„Miðað við þá stöðu sem kom út úr jólaprófunum þá eru þau að ráða við álagið, en svo kemur náttúrulega heildarniðurstaðan ekki fyrr en í vor, þegar allt árið er gert upp. Þetta lofar þó mjög góðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert