Staðfest að líkið er af Birnu

Birna Brjánsdóttir fannst látin í fjörunni skammt vestur af Selvogsvita …
Birna Brjánsdóttir fannst látin í fjörunni skammt vestur af Selvogsvita á Reykjanesi. Ekki er víst að hún hafi verið sett í sjóinn nákvæmlega þar. mbl.is/Hallur Már

Staðfest hefur verið með réttarmeinarannsókn að líkið sem fannst við Selvogsvita á sunnudag sé af Birnu Brjánsdóttur. Frá upphafi þótti lögreglu ljóst að þetta væri Birna, en úr því þurfti þó að fá skorið með formlegum hætti.

 „Krufning hefur leitt í ljós að um er að ræða Birnu Brjánsdóttur,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is í morgun.

Annar mannanna sem eru í haldi lögreglu, grunaðir um að hafa ráðið Birnu bana, var yfirheyrður í gær. Hinn verður yfirheyrður í dag. Yfirheyrslur fara fram á Litla-Hrauni. „Það liggur ekki fyrir játning í málinu,“ segir Grímur.

Lögreglan vill ekki að svo stöddu upplýsa frekar um niðurstöður rannsóknar erlends réttarmeinafræðings á líki Birnu, t.d. hver dánarorsök og dánarstund var. 

Enn eyður í ferðum bílsins

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Árni Sæberg

Enn er unnið að því að kortleggja ferðir rauða bílsins sem mennirnir höfðu til umráða morguninn sem Birna hvarf, 14. janúar. Í fréttum hefur komið fram að þegar mennirnir tveir komu að Hafnarfjarðarhöfn um kl. 6.10 um morguninn, fóru þeir báðir út úr bílnum, ræddust við í góða stund en svo virðist sem aðeins annar þeirra setjist aftur upp í bílinn og aki burt. Bíllinn var svo ekki sjáanlegur á hafnarsvæðinu á milli kl. 7 og 11.30. 

Grímur segir að nú sé verið að fara yfir mikið magn myndefnis, m.a. á leiðum að þeim stað sem hún fannst í fjörunni við Selvogsvita. „Við fengum töluvert magn af upplýsingum sem við erum núna að vinna úr,“ segir Grímur. 

- En eruð þið eitthvað nær því að vita hvar hún var sett í sjóinn?

„Við erum með hugmynd um það en það hefur ekki verið staðfest,“ segir Grímur og vill ekki fara nánar út í það.

- Hafið þið algjörlega getað útilokað að þetta hafi verið manndráp af gáleysi?

„Það hefur raunverulega ekkert verið útilokað í þessu sambandi,“ segir Grímur. „Og engar yfirlýsingar verið gefnar í því efni.“

Mögulegt að vopni hafi verið beitt

Á blaðamannafundi sem lögreglan hélt eftir að Birna fannst á sunnudaginn kom fram að leitað væri að mögulegu vopni. Grímur segist ekki vilja fara út í hvort slíkt hafi fundist. 

„Það hefur svo margt fundist og nú þarf að meta hvort það geti tengst,“ segir hann. Niðurstaða krufningar mun skýra hvort vopni hafi verið beitt eða ekki. „En ég hef ekkert viljað fara út í þetta.“

Grímur segir að engar frekari niðurstöður séu komnar úr lífsýnarannsóknum. Föt mannanna og fleiri munir úr Polar Nanoq voru meðal þess sem lögreglan lagði hald á við rannsóknina.

Annar mannanna hringdi stöðugt í vinkonu

Í gær birti Stundin viðtal við íslenska vinkonu annars mannsins sem er í haldi. Í viðtalinu lýsti hún því hvernig hann hringdi stöðugt í hana umrædda nótt, þ.e. nóttina og morguninn þegar Birna hvarf. Á þeim skjáskotum sem birtast með fréttinni má ráða að hlé hafi verið gert á símhringingunum á bilinu kl. 5.19 - 6.03 um morguninn. Birna sást síðast á eftirlitsmyndavél í miðbæ Reykjavíkur kl. 5.25. Rauði bíllinn sást á eftirlitsmyndavél í Hafnarfjarðarhöfn 45 mínútum síðar, eða um kl. 6.10.

Grímur staðfestir að lögreglan hafi fengið upplýsingar um þessa atburðarás hjá konunni. Hann bendir á að nákvæmnin skipti öllu máli þegar tímasetningar, t.d. á símtölum og efni úr eftirlitsmyndavélum, eru bornar saman. Hann segist eiga von á að þessi samskipti konunnar og annars sakborningsins verði skoðuð frekar. 

Grunaðir um manndráp

- Eru mennirnir grunaðir um sama sakarefnið?

„Þeir eru það, já,“ segir Grímur. „Þeir eru í gæsluvarðhaldi vegna gruns um sama sakarefni.“

Farið var fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum á grundvelli 211. greinar al­mennra hegn­ing­ar­laga. Í þeirri grein segir: „Hver, sem svipt­ir ann­an mann lífi, skal sæta fang­elsi, ekki skem­ur en 5 ár, eða ævi­langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert