Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur verið kjörinn formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Nefndin kom saman á fyrsta fundi sínum á þessu þingi klukkan tíu í morgun.
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, var þá kjörinn 1. varaformaður nefndarinnar og Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í embætti 2. varaformanns.
Fram kemur á vef Alþingis að nefndin fjallar um stjórnarskrármál, málefni forseta Íslands, Alþingis og stofnana þess, kosningamál, málefni Stjórnarráðsins í heild og önnur mál sem varða æðstu stjórn ríkisins.
„Nefndin fjallar um tilkynningar og skýrslur umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Nefndin hefur frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra og verklag þeirra. Nefndin gerir tillögu um hvenær er rétt að skipa rannsóknarnefnd og gefur þinginu álit sitt um skýrslur þeirra.“