Viðræður eru hafnar milli Faxaflóahafna og Sindraports, sem áður hét Hringrás, um að fyrirtækið flytji starfsemi sína úr Klettagörðum í Sundahöfn. Enn er óljóst hvert starfsemin getur flust en hún þarf að vera nálægt höfn. Augu manna hafa beinst að Álfsnesi, þar sem Sorpa er nú með starfsemi. Þar er hins vegar engin höfn fyrir hendi.
Sindraport safnar saman brotamálmi til endurvinnslu og útflutnings. Einnig tekur fyrirtækið á móti rafgeymum og spillefni, ónýtum hjólbörðum og ónýtum raftækjum.
Þetta er því þjóðþrifafyrirtæki. En staðsetningin í Sundahöfn þykir ekki heppileg, nálægt íbúðabyggð. Það hefur komið berlega í ljós þegar ítrekaðir eldsvoðar hafa orðið á svæðinu.
Nýr vinkill kom upp í málinu nýlega þegar í fórum Sindraports fannst undirritaður lóðarleigusamningur, sem ekki hafði verið þinglýst og ekki skilað sér til Faxaflóahafna sf. (áður Reykjavíkurhafnar). Lóðarleigusamningurinn er dagsettur 23. desember 2003 og gildir til loka árs 2023. Þáverandi hafnarstjóri, Bergur Þorleifsson, ritaði undir samninginn fyrir hönd Reykjavíkurhafnar, forvera Faxaflóahafna.
Á fundi stjórnar Faxaflóahafna síðastliðinn föstudag var tekið fyrir bréf lögmanns Sindraports, Hildar Leifsdóttur hdl., þar sem samningurinn fylgdi með í ljósriti. Stjórnendum Faxaflóahafna var ekki kunnugt um tilvist þessa samnings. Hann hefur gildi milli þeirra aðila sem skrifuðu undir hann.
Í fundargerð frá fundinum sl. föstudag segir að fram hafi komið í viðræðum við fulltrúa Sindraports að þeir væru reiðubúnir til viðræðna um flutning fyrirtækisins. Fyrirtækið er því greinilega tilbúið í slíkar viðræður þótt fyrir liggi samkomulag um að það geti verið með starfsemi í Klettagörðum til ársloka 2023.
„Af hálfu stjórnar Faxaflóahafna sf. var það sjónarmið ítrekað að óhjákvæmilegt sé að starfsemin flytji af lóðinni m.a. með tilvísun í þær forsendur sem bókaðar voru á fundi stjórnarinnar þann 9.12. sl. Í ljósi þess að fyrir hendi er vilji til að taka upp viðræður um flutning Sindraportsins af lóðinni Klettagarðar 9 og var hafnarstjóra falið að hefja þær viðræður og óska eftir að fulltrúi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur komi þar einnig að málum,“ segir í fundargerðinni.
Fjallað var um málefni Sindraports á stjórnarfundi Faxaflóahafna 9. desember 2016.
Í fundargerð um málið sagði m.a.: „Sem kunnugt er hafa a.m.k. þrír eldsvoðar komið upp inni á lóð Sindraportsins hf. (áður Hringrás hf.), þ.e. árið 2004, 2011 og 2016. Af hálfu eldvarnareftirlits Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins liggur fyrir sú afstaða að fullreynt sé með úrbætur á aðstöðu Sindraportsins hf. í Klettagörðum 9, m.a. með hliðsjón af stærð lóðarinnar og nálægðar við íbúðabyggð. Sé horft til tíðra eldsvoða á lóðinni og þeirra efna sem safnað er þar saman liggur fyrir að rekstur endurvinnslustöðvar á þessum stað getur leitt af sér almannavá. Slíkt staða er óviðunandi að áliti Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Faxaflóahafna sf. sem eiganda viðkomandi lóðar.
Með hliðsjón af framangreindu hyggjast Faxaflóahafnir sf. segja Sindraportinu hf., kt. 420589-1319, (áður Hringrás hf.) formlega upp afnotum af lóðinni Klettagarðar 9, Reykjavík. Afnotum Sindraportsins hf. (áður Hringrás hf.) verði sagt upp og miðað við að lóðin verði rýmd eigi síðar en í árslok árið 2017.“
Í svarbréfi Hildar Leifsdóttur, lögmanns Sindraports, er því harðlega mótmælt að leigusamningur um lóðina Klettagarðar 9 sé runninn út og vísað til meðfylgjandi samnings frá árinu 2003. „Sindraportið hefur alla tíð starfað eftir samningnum og lítur svo á að uppsögn hans, á þeim forsendum sem Faxaflóahafnir byggja á, sé óheimil,“ segir m.a. í bréfi lögmanns Sindraports.
Árið 2009 voru lóðamál Hringrásar hf. tekin fyrir í stjórn Faxaflóahafna sf. og m.a. bókað:
„Ef af framkvæmdum verður við gerð Sundaganga er það tillaga Vegagerðarinnar að einn gangamunni komi upp á því svæði sem Hringrás hefur aðstöðu. Að auki telur stjórn Faxaflóahafna sf. að starfsemi fyrirtækisins sé betur fyrir komið til framtíðar á öðrum stað. Því samþykkir stjórn Faxaflóahafna sf. að framlengja lóðarleigusamning fyrirtækisins við Hringrás um 5 ár, með fyrirvara um að framkvæmdir við Sundagöng hefjist fyrr.“
Ekkert bólar á Sundagöngum.