Einkarekin sjúkrahús hugnast Óttari Proppé, nýjum heilbrigðisráðherra, ekki sérstaklega. Landlæknir og heilbrigðisráðuneytið eru ósammála um hvernig skuli skilgreina einkarekið sjúkrahús sem Klíníkin áformar. Landlæknir segir að þar verði boðið upp á sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Þetta kemur fram í frétt Rúv.
Klíníkin Ármúla hefur fengið leyfi frá landlækni til þess að reka sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með 5 daga legudeild. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkt leyfi er veitt til einkaaðila hér á landi. Þetta kom fram í frétt Morgunblaðsins.
Frétt mbl.is: Leyfi veitt til að reka legudeild
Í frétt Rúv er einnig haft eftir forstjóra Landspítalans að gangi áform Klíníkurinnar eftir, muni það grafa undan sérhæfðri þjónustu sem fyrir sé á Landspítalanum og vísar til laga um sjúkratryggingar. Óttar svarar því til að hann vilji ekkert gera til að grafa undan góðri þjónustu og þjónustu á Landspítalanum.
Í tilkynningu frá Embætti landlæknis vegna málsins segir:
„Það er ekki hlutverk landlæknis að veita rekstraraðilum leyfi til að reka heilbrigðisþjónustu. Aðkoma landlæknis að rekstri heilbrigðisþjónustu felst í að staðfesta að fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu sem tilkynntur er til landlæknis uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf enda eitt af meginhlutverkum landlæknis að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu.“
Í tilkynningunni er jafnframt bent á að ráðherra fari með yfirstjórn heilbrigðismála og markar stefnu um skipulag heilbrigðisþjónustu.
Í gær óskaði Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, eftir fundi í velferðarnefnd vegna fréttar um að landlæknir hafi veitt Klíníkinni í Ármúla leyfi til að reka legudeild. Þetta kom fram á Facebook-síðu hennar.