Góð þátttaka í Veganúar

Samtök grænmetisæta á Íslandi halda vegan pálínuboð nokkrum sinnum á …
Samtök grænmetisæta á Íslandi halda vegan pálínuboð nokkrum sinnum á ári. Mynd/Samtök grænmetisæta á Íslandi

Átakið vegan janúar eða veganúar eins og það kallast líður brátt undir lok en lokahófið verður haldið á Gló í kvöld. Að sögn Sæunnar Ingibjargar Marínósdóttur, upplýsingafulltrúa Samtaka grænmetisæta á Íslandi, var þátttakan góð í ár.

„Þetta er búið að ganga mjög vel. Það er margt fólk búið að taka þátt og það er búin að vera mikil virkni í hópunum okkar og góð þátttaka í viðburðum,“ segir Sæunn.

„Við fengum í kringum 200 manns á kynningarfundinn okkar í byrjun janúar og svo var pálínuboð um miðjan janúar sem var vel sótt og góð stemning.“

Sæunn Ingibjörg Marínósdóttir er markaðsstjóri Gló og upplýsingafulltrúi Samtaka grænmetisæta …
Sæunn Ingibjörg Marínósdóttir er markaðsstjóri Gló og upplýsingafulltrúi Samtaka grænmetisæta á Íslandi Ljósmynd/Eydís Guðmundsdóttir

Sæunn segir margt nýtt fólk bætast í hópinn í janúar. „Það er mjög gaman að sjá hvað margir eru áhugasamir og vilja svolítið fara alla leið og gerast hluti af þessu vegan-samfélagi sem er að myndast hjá okkur á Íslandi.“

Veganuary, alþjóðlegi vegan-mánuðurinn, hefur verið haldinn fjórum sinnum. Samkvæmt könnun meðal skráðra þátttakenda á heimasíðu Veganuary árin 2015 og 2016 má ætla að um helmingur þeirra sem taka þátt í veganúar séu enn þá vegan hálfu ári síðar.

Engin tölfræði er til um hversu margir eru vegan eða grænmetisætur á Íslandi en Sæunn segir þó augljóst að talan hafi hækkað mikið á síðustu árum.

„Ég er markaðsstjóri Gló og var áður innkaupastjóri hjá Nettó og bara út af söluaukningu á vegan-vörum get ég fullyrt að fjöldinn hefur margfaldast á síðustu tveimur árum.“

Fyrir þá og þær sem hafa áhuga á að gerast vegan segir Sæunn einna mikilvægast að koma sér upp góðu stuðningsneti og vera óhræddur við að spyrja spurninga.

„Besta ráðið er bara að ganga í Facebook hópinn Vegan Ísland og vera virkur, koma á viðburði hjá okkur og kynnast aðeins öðrum sem eru í sömu sporum. Vera ófeimin(n) við að spyrja spurninga og leita ráða. Þetta er svo framandi fyrir marga, svo margt sem þarf að huga að og margt nýtt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert