Þriðji maðurinn fluttur á sjúkrahús

Um hundrað manns tóku þátt í aðgerðum, m.a. menn frá …
Um hundrað manns tóku þátt í aðgerðum, m.a. menn frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þriðji maðurinn sem varð undir snjóflóði á Esju um klukkan fimm síðdegis í dag er fundinn og hefur verið fluttur á sjúkrahús. Nánari upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir að svo stöddu. Tveir mannanna komust sjálfir upp úr flóðinu og voru þeir fluttir á sjúkrahús fyrr í kvöld.

Jón­as Guðmunds­son, stjórn­andi björg­un­araðgerða á svæðinu, segir að maðurinn hafi fundist fyrir um það bil klukkutíma og var hann fluttur með þyrlu á sjúkrahús upp úr klukkan átta í kvöld.

Frétt mbl.is: Á annað hundrað leita mannsins

„Staðan er sú að það er búið að finna alla og allir eru komnir á sjúkrahús. Við erum hægt og rólega að koma mannskapnum niður, það má reikna með að það taki tvo tíma til viðbótar,“ segir Jónas.

Björgunarsveitarfólk að störfum á Esju í kvöld.
Björgunarsveitarfólk að störfum á Esju í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um hundrað manns tóku þátt í aðgerðum í kvöld að sögn Jónasar en áður hafði verið greint frá því að um 150 manns hefðu verið kallaðir út til að taka þátt í aðgerðum í fjallinu. Menn frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tóku m.a. þátt í aðgerðum uppi í fjalli.

Snjóflóðið í Esju í dag ekkert einsdæmi

Sérfræðingur á ofanflóðavakt hjá Veðurstofu Íslands segir snjóflóðið í Esju í dag ekki vera einsdæmi heldur séu til þekkt dæmi um snjóflóð í fjallinu. Auður Kjartansdóttir á ofanflóðavakt Veðurstofunnar segir að snjóflóðið í dag megi rekja til norðanáttarinnar síðustu daga en snjór hefur safnast í suðurhlíðum fjallsins.

Frá Esjurótum í kvöld.
Frá Esjurótum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

„Sá snjór sem var fyrir í fjallinu er að bindast illa við þann snjó sem hefur safnast síðustu tvo sólarhringa,“ segir Auður. Ekki er unnin snjóflóðaspá fyrir Esjuna frekar en aðra staði utan spásvæða ofanflóðavaktar Veðurstofunnar að sögn Auðar. 

Frá björgunaraðgerðum á Esju í kvöld.
Frá björgunaraðgerðum á Esju í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert