Lét lífið í Esjunni

Esjan í gærkvöldi.
Esjan í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður lést í snjóflóði sem féll í Esjunni síðdegis á laugardag, en tilkynning um slysið barst lögreglu rétt fyrir kl. 17 í gær.

Tveir aðrir menn lentu einnig í flóðinu og voru þeir fluttir slasaðir á sjúkrahús, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Aðstandendur vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem aðstoðuðu við leitina að sögn lögreglu. 

Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna tók þátt í aðgerðunum.
Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna tók þátt í aðgerðunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi voru kallaðar út um klukkan fimm í gær vegna snjóflóðsins sem féll í hlíðum Esjunnar og tók með sér þrjá menn. Flóðið féll í um 600 metra hæð, hægra megin við gönguleiðina á fjallið.

Tveir menn komust af sjálfsdáðum úr flóðinu. Maðurinn sem lést fannst á áttunda tímanum í gærkvöldi.

Aðgerðirnar í gær voru mjög umfangsmiklar, en um 130 manns tóku þátt í aðgerðum í gær, m.a. björgunarsveitarmenn með leitarhunda, lögregla og sjúkralið. Þá fór þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvang og flutti mennina tvo sem komust lífs af á sjúkrahús.

Frétt mbl.is: Þriðji maðurinn fluttur á sjúkrahús

Frétt mbl.is: Á annað hundrað leita manns­ins

Frétt mbl.is: Snjóflóð féll á Esj­unni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert