Fulltrúar Vinstri grænna í utanríkismálanefnd hafa óskað eftir fundi hið fyrsta í nefndinni með utanríkisráðherra til að ræða aðgerðir Bandaríkjaforseta gegn íbúum tiltekinna ríkja sem tilheyra tilteknum trúarbrögðum og gegn flóttafólki frá Sýrlandi.
„Ósk um fundinn með utanríkisráðherra er til að ræða viðbrögð annarra ríkja og ekki síst hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda verði; bæði út frá samskiptum þjóðanna og mannréttindasjónarmiðum sem og hagsmunum á borð við flugsamgöngur,“ segir í tilkynningu sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmenn VG, hafa sent til fjölmiðla.
Á föstudag undirritaði Trump forsetatilskipun þar sem ríkisborgurum í sjö ríkjum, þar sem múslimar eru í meirihluta, er bannað tímabundið að ferðast til Bandaríkjanna. Ákvörðun forsetans þykir umdeild og hafa margir mótmælt henni. Greint hefur verið frá því að bandarískur dómari hafi frestað brottvísunum.