Fær ekki að fara til Bandaríkjanna

Meisam Rafiei á Keflavíkurflugvelli eftir að hafa verið vísað frá …
Meisam Rafiei á Keflavíkurflugvelli eftir að hafa verið vísað frá borði. Skjáskot af Facebook

Meisam Rafiei ætlaði í dag til Bandaríkjanna með flugfélaginu Wow air til þess að keppa á US Open-mótinu í sjálfsvarnaríþróttinni taekwondo fyrir Íslands hönd. Hann greinir frá þessu í opinni færslu á samfélagsvefnum Facebook.

Samkvæmt heimildum mbl.is var Meisam kominn með leyfi til þess að ferðast til Bandaríkjanna en þegar komið var um borð í flugvélina var honum á síðustu stundu gert að yfirgefa hana að kröfu bandarískra stjórnvalda. 

Ástæðan er ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að fólki frá Sýrlandi, Írak, Íran, Jemen, Líbýu, Sómalíu og Súdan er tímabundið bannað að ferðast til Bandaríkjanna. Meisam er með tvöfalt ríkisfang, íslenskt og íranskt, en þar sem hann er fæddur í Íran fær hann ekki að ferðast til Bandaríkjanna.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, segir spurð um málið í samtali við mbl.is að félaginu þyki málið miður en ekki hafi verið val um annað en að fara að fyrirmælum bandarískra yfirvalda. Rétt fyrir brottför hafi borist bréf frá Bandaríkjunum þess efnis að ekki væri heimilt að flytja umræddan farþega til landsins.

„Okkur þykir þetta mjög miður en getum ekki ráðið við þetta. Við munum hins vegar koma til móts við alla farþega okkar í sömu stöðu og þá annaðhvort endurgreiða þeim flugið eða leyfa þeim að breyta því þeim að kostnaðarlausu.“

Meisam hefur lengi stundað taekwondo og varð meðal annars Norðurlandsmeistari í greininni á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert