Kirkjuráði er full alvara að selja Kirkjuhúsið við Laugaveg í Reykjavík og húsið hefur ekki verið auglýst til sölu til þess eins að kanna hvað fengist fyrir það. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Oddi Einarssyni, framkvæmdastjóra kirkjuráðs. Vísað er í umfjöllun þess efnis að tilgangurinn sé sá einn að kanna markaðsvirði eignarinnar. Því er hins vegar vísað á bug.
Frétt mbl.is: Kirkjuhúsið aftur auglýst til sölu
„Kirkjuráði er full alvara með að selja húsið en það verður auðvitað ekki gert nema ásættanleg tilboð berist frá traustum aðilum en Kirkjumálasjóður, eigandi hússins þarf að svara fyrir allar gjörðir sínar gagnvart Ríkisendurskoðun. Þá er Kirkjumálasjóður leigusali og leigutakar hans í húsinu eru auk biskupsstofu Kirkjugarðaráð, Hið íslenska Biblíufélag og Skálholtsútgáfan, útgáfufélag kirkjunnar en auk þess nýtir kirkjuráð sjálft rými í húsinu fyrir starfsemi sína. Kirkjumálasjóður ber þannig ábyrgð á að starfsemi biskupsstofu og tengdra aðila verði komið þannig fyrir að fullur sómi sé að, verði af sölu hússins,“ segir í yfirlýsingunni.
Með fylgir greinargerð með tillögu til kirkjuráðs um sölu á Kirkjuhúsinu á fundi ráðsins 17. janúar:
„Tekjur Kirkjumálasjóðs hafa svo sem kunnugt er dregist verulega saman og þar með geta hans til að standa við lögbundnar skyldur sínar s.s. viðhald og endurbætur á eignum sínum. Skýrar vísbendingar hafa komið fram um að markaðsverð eigna við þann hluta Laugavegar sem Kirkjuhúsið stendur við sé um þessar mundir allt að ein milljón króna fyrir hvern fermetra í verslunarrýmum og mjög hátt fyrir skrifstofuhúsnæði. Fjárbinding Kirkjumálasjóðs í þessari eign sinni er því mjög mikil og full ástæða til að huga að því að losa um hana, binda frekar fé sjóðsins í eignum sem nýtast í kirkjulegu starfi en leysa þörf fyrir skrifstofurými biskupsembættisins og tengdra aðila með minni tilkostnaði.“