Kirkjuráð hefur auglýst eftir tilboðum í Kirkjuhúsið á Laugavegi 31. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um sölu en þetta er í annað sinn á tæpu ári sem ráðið kannar möguleikann á að selja húsið, sem hefur fasteignamat upp á 434 milljónir króna.
„Þetta eru fyrst og fremst þreifingar. Það kom upp umræða í kirkjuráði um að þetta væri kannski ekki heppilegur staður fyrir svona starfsemi og þá var ákveðið að fá fasteignasölu til að kanna sölumöguleikana,“ sagði Arnór Skúlason, verkefnisstjóri á fasteignasviði Biskupsstofu.
Greint var frá því í mars á síðasta ári að mörg tilboð hefðu borist í húsið, sem er í eigu kirkjumálasjóðs, en ákveðið var að bíða með sölu. Þá var fasteignamatið 362 milljónir króna og hefur það hækkað um 72 milljónir síðan, eða tæp tuttugu prósent.