Máli ákæruvaldsins gegn Pétri Gunnlaugssyni, lögmanni og útvarpsmanni á Útvarpi Sögu, fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs hefur verið vísað frá dómi. Þetta var úrskurður dómara í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Þetta staðfestir Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, í samtali við mbl.is.
Málið á rætur sínar að rekja til þess að 20. apríl í fyrra var tilkynnt að hinsegin fræðsla yrði hluti af kennsluefni grunnskóla í Hafnarfirði. Í kjölfarið urðu talsverðar umræður um málið í símatíma á Útvarpi Sögu. Hringdu hlustendur inn sem höfðu skoðanir um málið og féllu á þeim tíma þau ummæli sem ákært er fyrir.
Upphaflega kærðu Samtökin 78 málið til lögreglu sem vísaði því frá. Ríkissaksóknari fór hins vegar fram á sakamálarannsókn og var niðurstaða þess að ákært var í málinu. Eftir að ákæra var gefin út í málinu í nóvember í fyrra sagði Pétur við mbl.is að hann hefði aðeins verið að hlusta á það sem hlustendur stöðvarinnar hefðu að segja og að hann hafi ekki útilokað viðhorf þeirra sem hringdu inn. „Ég ber ekki ábyrgð á því sem hlustendur segja,“ sagði Pétur þá.
Samkvæmt frétt Rúv vísaði dómari málsins til þess í úrskurði sínum að mörg ummælanna sem hefðu fallið hlytu að teljast mjög almenns eðlis. Þá væri ákæran óglögg þar sem erfitt væri að átta sig á því hver ummælanna sem ákært var fyrir teldust saknæm. Þá sé verulegur galli á ákærunni þar sem ekki sé tiltekið heiti brots í ákærunni, en ákært var sem fyrr segir fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs, en í lagagreininni sem vísað var til í ákæru er þau orð ekki að finna.
Arnþrúður segir í samtali við mbl.is að þetta sé stór dagur fyrir fjölmiðla á Íslandi, enda hafi útvarpsstöðin verið sökuð um hatursorðræðu vegna málsins.