Verkfall sjómanna hefur lamandi áhrif á fyrirtæki og heimili í sjávarplássum og ekki síst sveitarfélögin og sjóði þeirra.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, að þótt sveitarfélagið verði af tekjum þoli það tekjumissi betur en fjölskyldurnar sem reki sig frá launaseðli til launaseðils.
„Við höfum fundið það mjög sterkt, sérstaklega á seinustu rúmri viku, að fiskverkafólk er að lenda í alvarlegum vandamálum. Það leitar eðlilega eftir aðstoð sveitarfélagsins og við reynum eftir fremsta megni að hjálpa.“ Elliði telur að þetta eigi ekki síst við um erlent verkafólk sjávarútvegsfyrirtækjanna sem eigi lítinn rétt hér á landi. Aðrir bæjarstjórar sem rætt var við hafa ekki orðið varir við aukna ásókn í fjárhagsaðstoð.