„Fasisti, kvenhatari og rasisti“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Golli

„Ég hef áhyggjur af því að Bandaríkjaforseti sé fasisti, kvenhatari og rasisti.“ Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnatíma Alþingis. Bætti hún við að sérstakar áhyggjur hefði hún af því, að Trump muni setja aftur á fót leynileg fangelsi víða um heim, til að vista þá sem honum þætti óæskilegir.

Spurði hún ráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson, hvort hann deildi áhyggjum hennar, og hvernig hann ætlaði að tryggja það að Ísland tæki ekki aftur þátt í því að fremja stríðsglæpi, með því að þjóna svokölluðu fangaflugi.

Vísaði hún til forsetatíðar George W. Bush, þar sem sterkur grunur var um að millilent hefði verið með fanga hér á landi.

„Ég hef grun um að hæstvirtur utanríkisráðherra verður upptekinn í þessum fyrirspurnatíma,“ sagði hún einnig.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. mbl.is/Golli

„Ekkert gildishlaðið við það“

Guðlaugur tók til svara og sagði að áfram yrði staðið við þau gildi sem Ísland hefði markað sér í sinni utanríkisstefnu. Þá sagði hann að þær sviðsmyndir sem Þórhildur hefði sett fram, væru hæpnar.

Þórhildur sagði á móti að það væri ekkert hæpið við þetta umræðuefni.

„Það að ætla að hefja aftur vatnspyntingar, eins og Trump hefur lýst, það eru stríðsglæpir,“ sagði Þórhildur. „Það er ekkert gildishlaðið við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert