Birna Hrönn Sigurjónsdóttir er nýkomin heim af opna hollenska meistaramótinu í íssundi. Þar vann hún í báðum greinunum sem hún keppti í, eða 500 metra sundi og 1.000 metra, og er því hollenskur meistari í greinunum.
Laugin sem hún synti í var aðeins 3,8 gráður á celsíus. Þátttakendur voru um fimmtíu talsins.
Birna Hrönn segist í samtali við mbl.is vera ánægð með árangurinn og að hún hafi verið mjög fljót að jafna sig að sundunum loknum.
„Þetta er vissulega mikið álag á líkamann, sérstaklega við að ná í sig hita á eftir. Það er í raun erfiðara en sundið sjálft,“ segir Birna Hrönn.
Hún kveðst hafa verið fljótari að jafna sig eftir 1.000 metrana heldur en 500 metrana. Eftir síðarnefndu vegalengdina var hún hálftíma að jafna sig en eftir 1.000 metrana dugðu henni fimmtán mínútur í heitum potti.
Stutt er síðan Birna keppti á HM í íssundi í Þýskalandi og þar lenti hún þriðja sæti í sínum aldursflokki.
Frétt mbl.is: Birna í þriðja sæti á HM