Banaslys í svefnskála á Reykjanesi

mbl.is

Einn maður lést og annar hefur verið fluttur á sjúkrahús eftir alvarlegt vinnutengt slys, sem átti sér stað hjá fiskverkunarfyrirtækinu Háteigi  á Reykjanesi í nótt.

Mennirnir tveir höfðu dvalið í svefnskála sem stendur í nágrenni verksmiðju Háteigs. Þegar að var komið í  morgun var annar mannanna látinn, en hinn var fluttur á sjúkrahús.

Vinnueftirlitinu barst tilkynning um málið um áttaleytið í morgun. Lögreglan á Suðurnesjum er nú á staðnum að rannsaka tildrög slyssins og eins eru þrír menn frá Vinnueftirlitinu á vettvangi.

Mjög sterk lykt er á svæðinu og inni í verksmiðjunni og hefur Vinnueftirlitið því bannað starfsemi inni í verksmiðjunni að svo stöddu.

„Þetta er grafalvarlegt,“ segir Kristinn Tómasson yfirlæknir Vinnueftirlitsins. „Að sögn staðkunnugra er óvenjuleg lykt inni í verksmiðjunni miðað við það sem venjulega er og þess vegna er búið að banna vinnu í verksmiðjunni og á tengdu svæði.

Uppfært: 11:57

„Þetta er mikil sorg hjá bæði eigendum og starfsfólki,“ segir Matthías Magnússon, framkvæmdastjóri Háteigs. „Þetta var starfsmaður sem var búinn að vera hjá okkur í ein tólf ár og hugur okkar er hjá hans fjölskyldu og vinum.“

Upphaflega var greint frá því húsið væri tengt verksmiðjunni, en rétt er að það er frístandandi og í um 20 metra fjarlægð. Það er því er ekki rétt að gufur hafi borist innan úr verksmiðjuhlutanum.

Starfsmenn Vinnueftirlitsins hafa einnig verið að fara í önnur fyrirtæki á svæðinu við rannsókn á tildrögum slyssins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert