Starfsemi stoppuð vegna loftmengunar

Lögregla hefur lokað af svæðinu þar sem banaslysið átti sér …
Lögregla hefur lokað af svæðinu þar sem banaslysið átti sér stað. mbl.is/Hilmar Bragi Bárðarson

Vinnueftirlitið hefur lokað tímabundið allri vinnslu í fyrirtækjunum Háteig, Haustaki og Stolt Seafarm á Reykjanesi. Er þetta gert í kjölfar þess að einn maður lést og annar var fluttur á sjúkrahús eftir alvarlegt vinnutengt slys hjá fiskverkunarfyrirtækinu Hátegi í nótt.

Mjög sterk lykt frá jarðgufum er á svæðinu og aðallega inni í húsakynnum fyrirtækjanna og segir Kristni Tómassyni yfirlæknir Vinnueftirlitsins í samtali við mbl.is alla starfsemi í húsunum hafa verið bannaða á meðan að reynt sé að komast að því hvað valdi því að þessi loftmengun berist inn í húsin.

Frétt mbl.is: Banaslys í svefnskála Reykjanesi

Haft var eftir Kristni í morgun að staðkunnugir hafi haft orð á því að óvenjulegt lykt hafi verið inni í verksmiðju Háteigs, miðað við það sem venjulega er.

Þrír starfsmenn Vinnueftirlitsins hafa verið að störfum á svæðinu í morgun ásamt lögreglunni á Suðurnesjum.

Einn þeirra möguleika sem verið er að skoða, er hvort gas hafi borist með vatnsleiðslum inn í húsið, en fyrirtækið er á virku jarðhitasvæði. Kristinn staðfestir að þetta sé ein af þeim tilgátum sem sé verið að skoða, en segir slíkt ekki hafa verið staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert