Telur stuðning í þingflokknum mikinn

Teitur Björn Einarsson.
Teitur Björn Einarsson. mbl.is/Eggert

Frumvarp um afnám einkasölu ÁTVR á bjór og léttvíni verður lagt fram á Alþingi á næstunni. Flutningsmenn frumvarpsins koma úr fjórum flokkum, Sjálfstæðisflokki, Viðreisn, Pírötum og Bjartri framtíð.

„Uppistaðan er byggð á þeim frumvörpum sem hafa verið lögð fram á síðustu tveimur þingum. Sú viðbót er að við erum að leggja til breytingar á reglum um áfengisauglýsingar til að jafna samkeppnisstöðu milli innlendra og erlendra aðila,“ segir Teitur Björn Einarsson, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, en um er að ræða sama frum­varp og lagt var fram á síðustu tveim­ur þing­um en var þá ekki af­greitt.

42 þingmenn í flokkunum fjórum

Auk hans eru flutningsmennirnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir úr Sjálfstæðisflokki, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson úr Pírötum, Pawel Bartoszek úr Viðreisn og Nichole Leigh Mosty úr Bjartri framtíð. Alls eru þingmenn áðurnefndra flokka 42 en 32 þingmenn þurfi að greiða atkvæði með frumvarpinu til að það verði að lögum.

Verði frumvarpið að lögum verður einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis afnumið frá og með næstu áramótum. Sala áfengis verður heimiluð í sérverslunum í sérrýmum innan verslana og áfengisauglýsingar innlendra aðila verða heimilaðar og leyfðar í innlendum fjölmiðlum.

Áfengi selt frá 9 að morgni til miðnættis

Það eru takmarkanir á afgreiðslutíma áfengis, það eru skilyrði um að áfengi sé í sérrými í verslunum og það er gert til að hægt sé að hætta smásölu þess þó verslun sé enn opin,“ segir Teitur en frumvarpið gerir ráð fyrir því að sala áfengis verði heimilum frá 9 að morgni til miðnættis. Ströng skilyrði verða sett um öryggisbúnað eins og til að mynda eftirlitsmyndavélar og afgreiðslumaður áfengis verður að hafa náð 18 ára aldri.

Verður brennivínið komið í búðir að ári liðnu?
Verður brennivínið komið í búðir að ári liðnu? mbl.is/Heiddi

Aðspurður segir Teitur að víðtækur stuðningur sé innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins í málinu. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því þó yfir í samtali við Fréttablaðið að hann muni greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

Það hefur legið fyrir að það eru ekki allir sem hafa gert upp hug sinn og þess háttar, enda eðlilegt að mál fái umræðu á þinginu og fái meðferð í nefndum og verði við umsögnum og athugasemdum sem berast. Stuðningurinn í þingflokknum er yfirgnæfandi,“ segir Teitur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert