Útför Birnu í dag

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir.

Útför Birnu Brjánsdóttur fer fram frá Hallgrímskirkju í dag kl. 15. For­eldr­ar Birnu sögðu frá því í færslu á Face­book á mánu­dag að blóm og krans­ar væru afþökkuð en bentu fólki þess í stað á að styrkja Slysavarnafélagið Lands­björg. Jafnframt hafa þau beðið fjölmiðla að taka ekki nærmyndir af fólki syrgja.

Maður sem grunaður er um að hafa valdið dauða Birnu Brjánsdóttur var í gær úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald í tvær vikur á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Jón HB Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri á ákærusviði, staðfesti við mbl.is að maðurinn mundi sitja áfram í einangrun. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort játning lægi fyrir í málinu né hvernig rannsókn gengi. Hinum manninum sem setið hefur í gæsluvarðhaldi var sleppt í gær og hélt hann heim til Grænlands í gærkvöldi.

Mennirnir tveir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðustu tvær vikur vegna málsins en ekki var krafist áframhaldandi gæsluvarðshalds yfir öðrum þeirra. Hann var leiddur fyrir dómara í gær til að staðfesta framburð sinn hjá lögreglu en var í kjölfarið látinn laus. Hann heldur þó réttarstöðu sakbornings í málinu. „Hann er í raun frjáls ferða sinna, við teljum að hans hlutur sé nægilega upplýstur. Hann heldur þessari réttarstöðu því hann kann að búa yfir upplýsingum um hvarf Birnu,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.

Verður hugsanlega kallaður aftur til yfirheyrslu

Þá útilokar Grímur ekki að hann verði kallaður aftur til yfirheyrslu, „Það getur miklu meira en vel verið að við þurfum að tala við hann meira,“ segir Grímur.

Hann sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að maðurinn kæmi til baka ef þess gerðist þörf. „Við fórum þess á leit við manninn að hann kæmi til baka ef á þyrfti að halda og hann ætlar að gera það ef farið verður fram á það,“ sagði Grímur.

„Þau úrræði sem við höfum eru að biðja um að menn séu yfirheyrðir í öðrum löndum með réttarbeiðnum og síðan getum við náttúrlega farið fram á framsal frá Grænlandi. Það er mögulegt ef á þarf að halda. En hann hefur hins vegar lýst því yfir að hann sé viljugur til þess að koma til baka og svara spurningum,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert