Yfirþrýstingur í borholu olli gasmengun

Lögregla rýmdi fyrirtæki á svæðinu þegar í ljós kom að …
Lögregla rýmdi fyrirtæki á svæðinu þegar í ljós kom að gas hefði safn­ast upp í neyslu­vatns­kerfinu. mbl.is/Hilmar Bragi Bárðarson

„Það var verið að dæla köldu vatni ofan í borholu, það myndast yfirþrýstingur í þessari borholu og kalda vatnið fer til baka inn í neysluvatnslögnina,“ segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, um ástæður þess að gas safnaðist upp í neysluvatni bygginga á Reykjanesi í morgun.

Snemma í morgun fannst einn maður látinn og annar illa haldinn í svefnskála á svæði fiskverkunarfyrirtæk­inu Háteig. Í kjölfarið kom í ljós að gas hefði safnast upp í neysluvatnskerfinu á svæðinu sem er í nágrenni við Reykjanesvirkjun.

Frétt mbl.is: Gas fannst í neysluvatnskerfi

„Það sem gerist þarna er að kolmónoxíð og brennisteinsvetni komast í vatnið og vegna sírennslis á salerni þá fyllist rými starfsmanna af kolmónoxíð og brennisteinsvetni með þessum hörmulegu afleiðingum,“ segir Kristinn.

Allt bendir til þess að lát mannsins megi rekja til gasmengunarinnar.

„Það liggur fyrir að þessir tveir menn urðu fyrir lífshættulegri mengun og væntanlega er það skýringin en formleg staðfesting liggur ekki fyrir.“

Hreinsun næstum lokið

Lekinn hefur verið stöðvaður og unnið er að hreinsun á lögnum í neysluvatnskerfinu.

„Um leið og menn áttuðu sig var skrúfað fyrir neysluvatnið. Svo var kerfið þurrausað og eftir það hverfur mengunin.“

Að sögn Kristins er nú verið að kanna hvort mengunin sé „sannarlega horfin.“

„Það er verið að klára það og við þurfum bara að fá staðfestingu á því að því hafi verið lokið.“

Frétt mbl.is: Fyrstu aðgerðir að tryggja öryggi

Kristinn segir alla hafa brugðist eins vel við og hægt var. „Þetta er náttúrulega alveg hrikalegt slys sem enginn gerði sér grein fyrir að væri mögulegt, þetta kom aftan að fólki.“

Spurður um hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að slys á borð við þetta endurtaki sig segir Kristinn að mikilvægast sé að tryggja að neysluvatnslagnir tengist ekki inn á lagnir sem eru notaðar á háhitasvæðum, „þannig að hætta sé á að það smitist gasefni til baka frá borholunum.“

Frétt mbl.is: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert