„Í fyrstu fengum við ekki að vita neitt, bara að eitthvað væri að dælu í vélarrúminu,“ segir Niels Jacob Heinesen, kokkur á grænlenska togaranum Polar Nanoq í samtali við færeyska sjónvarpið, um það þegar skipinu var snúið til hafnar á Íslandi 18. janúar, í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur. Skipið hafði verið á veiðum í rúmlega tvo sólarhringa er því var snúið aftur til Íslands. Það hafði látið úr höfn í Hafnarfirði að kvöldi laugardagsins 14. janúar, rúmum hálfum sólarhring eftir að Birna sást síðast á lífi.
Brot úr viðtalinu var birt á vef RÚV fyrr í dag og nú er það komið í heild, með íslenskum texta, inn á RÚV.is.
Heinesen segir í viðtalinu að nokkru eftir að skipinu var snúið aftur til Íslands hafi skipverjar fengið að vita að leitað væri upplýsinga um rauða Kia Rio-bílinn sem einn skipverjinn hafði haft á leigu. Í kjölfarið hafi þeir haft auga með honum.
„Hann lét ekkert fara fyrir sér, hélt sig bara í klefanum,“ segir Heinesen. Maðurinn sem var með bílinn á leigu er enn í haldi lögreglu, grunaður um að hafa banað Birnu. „Það var ekki þannig að við höfðum lokað hann inni eða neitt slíkt, við höfðum bara auga með honum.“
Spurður hvernig áhöfnin upplifði það þegar íslenskir sérsveitarmenn komu um borð svarar Heinesen: „Það virkaði frekar dramatískt þegar menn komu í stormi og lögreglan kemur niður í skipið. En lögreglan áttaði sig strax á því að áhöfnin var friðsæl og fús til að hjálpa.“
Hann segir að mennirnir tveir, sem voru handteknir strax við komu lögreglumannanna, hafi verið aðskildir um borð.
Frétt mbl.is: „Þetta var allt svo ótrúlega dapurlegt“
Heinesen segir það hafa verið undarlegt að sigla inn til Hafnarfjarðarhafnar og sjá þar fjölda lögreglubíla á hafnarbakkanum. Hann segist oftsinnis hafa komið til hafnarinnar undanfarin ár og líti á hana sem sína heimahöfn en hann er frá Færeyjum. „Þegar ljósin sjást í Hafnarfirði er maður kominn heim,“ segir hann.
Hann segir að allt hafi virst óraunverulegt og eins og tíminn stæði í stað. „Ég ráfaði bara um og hugsaði um hvað væri að gerast og grét inn á milli. Ég var í algjöru áfalli.“
Er lögreglan leitaði í Polar Nanoq eftir komuna til landsins lagði hún ekki aðeins hald á muni í eigu skipverjanna tveggja sem höfðu verið handteknir heldur fann hún mikið magn af hassi, um 20 kíló. Heinesen segir það litlu skipta í stóra samhenginu.
„Það er stúlkan, Birna,“ segir Heinesen. Birna hafi aðeins verið tvítug og að hann eigi sjálfur 22 ára gamlan son. Er hann ræðir þetta í viðtalinu má augljóslega sjá að það tekur á hann. Hann hristir höfuðið og horfir fram fyrir sig. „Hvað gerðist eiginlega? Svo er verið að spyrja út í hass og önnur efni. Það er bara rugl í mínum huga, rétt eins og stöðumælasekt.“
Hann segir það vera örlög Birnu sem éti sig að innan. „Og að þar hafi verið að verki maður sem ég þekkti.“