Mikilvægt að vita hvaða valdi sé afsalað

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert

Mikilvægt er að vita hversu miklu valdi þingmenn afsala sér með nýjum breytingum á lögum um opinber fjármál, þar sem ráðherrar fá aukið vald til að ráðstafa fjármunum innan sinna málaflokka.

Þetta sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í pontu Alþingis í dag, er hún beindi fyrirspurn sinni um verklag við opinber fjármál til Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra.

Sagði hún fjárlaganefndina hafa lítinn tíma til umráða við núverandi fyrirkomulag, og að hún sæi ekki hvernig þingið ætti að hafa tíma til að ræða verkefni sem meirihluti stjórnarráðsins, og starfsmenn þess, væru að vinna að allt árið.

Vildi útskýringu á 41,5% viðmiðinu

Bjarkey sagðist þá vona að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar, sem er efni þingsályktunartillögu sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hef­ur lagt fram á Alþingi, myndi leiða til faglegrar umræðu.

Gerði hún athugasemdir við að helstu lykiltölur stefnunnar væru þó ekki birtar og að framsetning hennar væri byggð á hlutföllum en ekki tölum. Þá óskaði hún eftir útskýringu á því við hvað var miðað, þegar ákveðið var í stefnunni að ríkisútgjöld mættu ekki fara yfir 41,5% af vergri landsframleiðslu.

Benedikt Jóhannesson á Alþingi.
Benedikt Jóhannesson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Markmiðið að stuðla að jafnvægi

Benedikt svaraði því til að von sín væri að framsetning fjármálastefnunnar leiddi til faglegrar umræðu. Umræðan ætti þá ekki að snúast um hversu miklu væri varið í tiltekna málaflokka, heldur til dæmis um hversu mikið aðhald ríkisstjórnin ætti að veita í fjármálunum og hvort verið væri að niðurgreiða skuldir ríkissjóðs of hratt niður, eða hægt.

Markmið fjármálastefnunnar væri þá að stuðla að efnahagslegu jafnvægi og að af­gang­ur á heild­araf­komu hins op­in­bera verði auk­inn tals­vert á næsta ári, til að hægja á eft­ir­spurn­ar­vexti í hag­kerf­inu.

Þá sagði hann viðmiðið um 41,5% hafa verið fundið út með hliðsjón af sögulegri þróun. Útlit væri þá fyrir að útgjöldin yrðu um 41 til 41,5% á þessu ári.

Salurinn tæmist við fjárlagaumræðu

Bjarkey sagði of lítinn tíma gefast til að ræða þetta málefni, sem væri án efa eitt það mikilvægasta sem tekið væri til umræðu á þinginu.

Bætti hún við að lengi hefði loðað við þingið að salurinn tæmdist þegar fjárlög væru rædd og það væri enn raunin að einhverju leyti.

„Við hefðum þurft miklu meiri tíma, og í raun þrjár umræður í röð núna, til að ná betur utan um þetta.“

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn

„Hinar hagsýnu húsmæður“

Í umræðum sem fylgdu fyrirspurn Bjarkeyjar og svari Benedikts tóku átta aðrir þingmenn til máls, þrír karlar og fimm konur.

Benedikt sagði það áhugavert hverjir hefðu sýnt mestan áhuga á umræðunum.

„Það erum við Njáll Trausti [Friðbertsson, þingm. Sjálfst.fl.] og hinar hagsýnu húsmæður, sem eru hérna í stórum hópum. Það er einmitt þannig, að þetta skiptir afar miklu máli, að tala um þetta. Ég sé að það fjölgar nú hér í þingsalnum um leið og ég mælti svo,“ sagði hann og brosti við.

„En þetta er líklegast mikilvægasta málefni kjörtímabilsins. Þarna erum við að marka stefnuna, við erum að marka rammann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert