Eldur í ofni Alcoa Fjarðaráls

Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði.
Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Eldur kom upp í ofni steypuskála í álveri Alcoa Fjarðaráls á Reyðarfirði í morgun. Tilkynning um eldinn barst klukkan 11.15.

Að sögn Guðmundar Helga Sigfússonar, slökkviliðsstjóra í Fjarðabyggð, gekk vel að slökkva eldinn og reykræsta og varð engum meint af. Hann veit ekki til þess að eldurinn hefði áhrif á framleiðsluna í fyrirtækinu.

Hann segir að tólf slökkviliðsmenn hafi verið kallaðir út og luku þeir störfum klukkan rúmlega 12.

Guðmundur telur að eitthvað hafi farið inn í ofninn sem hafi náð að brenna inni í honum og þannig hafi eldurinn kviknað.

„Þetta var ágætiseldur á meðan þetta logaði en það var ekkert annað í hættu.“

Hann segir að álslettur geti myndast við aðstæður sem þessar og þær séu stórhættulegar. Þær hafi ekki myndast í morgun. „Menn eru mjög varfærnir og vel gallaðir. Þarna er mikið öryggi og menn eru við öllu búnir,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert