Á morgun er Marple-málið svokallaða á dagskrá Hæstaréttar Íslands. Ekki er þó um að ræða eiginlega málsmeðferð þess fyrir dómstólnum, heldur verður einungis tekist á um eina málsástæðu, það er meint vanhæfi sérfróðs meðdómara málsins. Komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að meðdómarinn hafi verið vanhæfur mun hann væntanlega ómerkja dóm héraðsdóms og vísa málinu aftur í hérað.
Í Marple-málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum Hreiðars Más og Guðnýjar Örnu og Skúli Þorvaldsson er ákærður fyrir hylmingu.
Þegar aðalmeðferð málsins var lokið fór lögmaður Hreiðars fram á að meðdómarinn Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, myndi víkja sæti í málinu. Vísaði hann meðal annars til þess að Ásgeir hefði verið virkur í umræðu um spillingu og taldi lögmaðurinn að ummæli hans í grein í Fréttablaðinu og dreifing á fréttum af Kaupþingsmálum á samfélagsmiðlum bendi til vanhæfi hans í málinu. Sagði hann Ásgeir telja fjármálahrunið táknmynd spillingar og því væri hægt að draga óhlutdrægni hans í efa.
Dómsformaður málsins úrskurðaði hins vegar að meðdómarinn væri ekki vanhæfur og þar sem málsmeðferð var hafin gátu verjendur í málinu ekki kært úrskurðinn til Hæstaréttar.
Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars, staðfestir í samtali við mbl.is að á morgun verði aðeins málflutningur um þessa einu málsástæðu sem sé meint vanhæfi sérfróðs meðdómara. Vakti nokkra athygli að málflutningstími saksóknara og verjanda á morgun var aðeins samtals tæplega klukkustund, en almennt hefur málflutningur fyrir Hæstarétti í fyrri hrunmálum staðið yfir í nokkrar klukkustundir.
Verði niðurstaða Hæstaréttar að Ásgeir hafi ekki verið vanhæfur verður væntanlega ákveðin ný dagsetning á næstunni til að flytja málið fyrir Hæstarétti um efnisatriði málsins og önnur formsatriði. Telji Hæstiréttur hins vegar að Ásgeir hafi verið vanhæfur má búast við því að dómur héraðsdóms verði ómerktur og málið sent á ný til héraðs.