Ásýnd dómara í íslensku réttarkerfi hefur öðlast meira vægi, og gerðar eru meiri kröfur um að þeir séu trausts síns verðugir. Þetta sagði Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrir Hæstarétti í morgun.
Tekist var á um hvort meðdómari í Marple-málinu, en aðalmeðferð þess fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í september 2015, hefði verið vanhæfur til að dæma í því.
Í október 2015 var áformað að kveða upp dóm í málinu, en Hörður sagðist þá hafa fengið upplýsingar um meinta hlutdrægni meðdómarans Ásgeirs Brynjars Torfasonar, og krafðist þess að hann væri úrskurðaður vanhæfur. Undir kröfu hans tóku verjendur Magnúsar Guðmundssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fyrrum fjármálastjóri Kaupþings, auk verjanda félagsins Marple.
Ásgeir er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Hörður vísaði í morgun meðal annars til þess að Ásgeir hefði verið virkur í umræðu um spillingu. Ummæli hans í grein í Fréttablaðinu og dreifing á fréttum af Kaupþingsmálum á samfélagsmiðlum bentu til vanhæfi hans í málinu. Sagði hann ljóst að Ásgeir teldi fjármálahrunið táknmynd spillingar og því væri hægt að draga óhlutdrægni hans í efa.
Vísaði hann til nokkurra dóma Hæstaréttar, þar sem litið hefði verið svo á að ummæli tiltekinna dómara á opinberum vettvangi leiddu til vanhæfis þeirra.
„Þá liggur fyrir að dómarinn hefur verið mjög virkur á samfélagsmiðlum, þar sem hann hefur tjáð sig um málefni ákærðu,“ sagði Hörður og benti á að Ásgeir hefði deilt fréttum af dómum yfir ákærðu á Facebook og Twitter og sýnt þannig jákvæða afstöðu til dómanna.
Sagði Hörður að Ásgeir hefði deilt og mælt með Facebook-færslu, sem Baldur nokkur McQueen skrifaði um að hrærigrautur spillingar, græðgi, frændhygli og vankunnáttu hefði orsakað hrunið.
Ásgeir hefði þá meðal annars notast við orðið „bankabófar“, og vart færi á milli mála að þar ætti hann við stjórnendur íslensku bankanna.
Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari í málinu, sagði ákæruvaldið telja að þau atriði sem nefnd hefðu verið gæfu ekki ástæðu til að efast um óhlutdrægni meðdómarans.
Almenn ummæli hans um spillingu gætu þá engin áhrif haft á hæfi hans.
Arnþrúður sagði ákæruvaldið taka undir úrskurð Héraðsdóms um þetta atriði, þar sem meðdómarinn var ekki metinn vanhæfur.
Vísaði hún til fyrri dóma Hæstaréttar, þar sem almenn ummæli voru ekki talin valda vanhæfi dómara í tilteknum málum, þrátt fyrir að stefnendur hefðu þá sagt þau „hljóta að leiða til vanhæfis“.
Skýrari tenging þyrfti að vera á milli ummæla og gjörða meðdómarans annars vegar, og þessa máls ákærðu hins vegar, svo hægt væri að draga óhlutdrægni hans í efa.
Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, sagði að afstaða meðdómarans til málefna ákærðu væri hafin yfir allan vafa, með vísan til gagna málsins.
Hér væri tekist á um eina af grunnstoðum hins íslenska réttarríkis, að dómstólar ættu að vera sjálfstæðir og óvilhallir í sínum störfum. Ljóst væri að jafnvel þó Hæstiréttur mæti það svo að hið huglæga skilyrði vanhæfis væri ekki uppfyllt, þá væri hlutlæga skilyrðið svo sannarlega uppfyllt, en það byggist á því hvernig ásýnd meðdómarans er út á við.