Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, krefst þess að tvö dómsmál, sem ákæruvaldið höfðaði á hendur honum, verði tekin að nýju upp fyrir dómi.
Sigurjón var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í október 2015, fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í hinu svokallaða Ímon-máli.
Þá var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Hæstarétti í febrúar á síðasta ári, aftur fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik.
Samtals hefur Sigurjón því fengið fimm ára dóm vegna mála tengdum hruni viðskiptabankanna árið 2008.
Í samtali við mbl.is segist Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, vera að vinna að beiðni til endurupptökunefndar, en beiðnin byggist að hluta á fréttum af hlutabréfaeign nokkurra hæstaréttardómara, og tapi þeirra í bankahruninu, sem fluttar voru seint á síðasta ári.
Sigurður segir að upphaflega hafi beiðnin þó aðeins verið reist á nýjum gögnum sem fram komu í málinu, sem tengjast verðmati á BYR-sparisjóði.
„Og eftir andsvör frá ríkissaksóknara í desember, þá fórum við að safna saman frekari gögnum um þetta og rýna í þau. En um það leyti sem við erum að gera það þá koma allar þessar fréttir um hlutabréfaeign dómara.“
Þið teljið að tilteknir dómarar hafi verið vanhæfir til að dæma í málunum vegna þessa?
„Ég held svona að hlutrænt séð, þegar þú tapar einhverjum milljónum á falli Landsbankans, þá sértu vanhæfur. Þetta eru miklar fjárhæðir. Það er enginn að segja að það hafi verið huglægt vanhæfi. Það lítur bara ekki vel út, þegar það segir í dómi að ákærði hafi með gjörðum sínum skaðað litla sem stóra hluthafa, og svo eru tveir dómaranna hluthafar.“
Aðspurður segir Sigurður að hann eigi þarna við hæstaréttardómarana Eirík Tómasson og Viðar Má Matthíasson.
Fréttablaðið greindi fyrst frá kröfu Sigurjóns.