Verður ekki skýrara en í stjórnarsáttmála

Björt Ólafsdóttir.
Björt Ólafsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég vil spyrja umhverfis- og auðlindaráðherra út í framkvæmd þess hluta stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem segir að ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju,“ sagði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi.

Oddný tók fram að hún væri ánægð með stefnu ríkisstjórnarinnar en vildi vita meira um framkvæmdina en hún sagðist ekki hafa séð neinar lagabreytingar þessu til stuðnings. 

Hvernig á að framfylgja því að mengandi stóriðja fái ekki ívilnanir á grundvelli laga sem í gildi eru? Má skilja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar svo að hér megi setja af stað ný verkefni sem gætu kallast mengandi stóriðja en þau fái bara ekki fjárfestingarsamning með ívilnunum?“ spurði Oddný.

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra sagði að það væri alveg rétt að ríkisstjórnin ætli ekki að efla til nýrra fjárfestingasamninga vegna megnandi stóriðju. Hún telur ekki þörf á lagabreytingu en þriggja manna nefnd hefur verið skipuð til að fjalla betur um græna atvinnustarfsemi.

„Sú þriggja manna nefnd sem er í ráðuneytinu hefur fengið þau tilmæli og veit að það er ekki í stefnu ríkisstjórnarinnar að veita mengandi stóriðju ívilnanir og hún ætlar ekki að gera það,“ sagði Björt.

Ég veit eiginlega ekki hvernig ein ríkisstjórn getur sagt þetta skýrar en að setja það í stjórnarsáttmála sinn, þetta spesifíska ákvæði, að hún muni ekki veita ívilnanir til nýfjárfestinga í mengandi stóriðju. Það getur eiginlega ekki verið neitt skýrara en það,“ sagði ráðherra ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert