Kannanir um kynbundinn launamun „algjörlega marklausar“

Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi.
Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi. Ljósmynd/Bjarni Eiríksson

„Ég held alls ekki fram að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar. Hins vegar virðast ekki vera til nein áreiðanleg gögn sem sýna fram á slíkt með sannfærandi hætti á Íslandi,“ segir Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi. 

„Allar kannanir stéttarfélaga sem ég hef séð síðustu árin eru algerlega marklausar,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Svarhlutfall í könnunum sé sjaldan mikið yfir 50% sem þýði að ómögulegt sé að vita hvort svörin endurspegli það sem um heildina gildir.

Segir Einar að meira að segja í vönduðum könnunum Hagstofu Íslands og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hafi „óútskýrði launamunurinn“ verið lítill og þar séu slegnir miklir varnaglar. „Það er útilokað að vera viss um að tekið hafi verið tillit til allra breyta sem skipta máli, auk þess sem hlutlægt mat á framlagi starfsmanna með sambærilega starfslýsingu er nánast ómögulegt,“ útskýrir Einar.

„Tölfræðilegt kraftaverk“ ef það hallar bara á konur

Bendir Einar á að í nýlegri úttekt velferðarráðuneytisins komi fram að konur á aldrinum 18-27 ára í opinbera geiranum séu að meðaltali með hærri laun en karlar. „Getur verið að baráttan fyrir launajafnrétti milli kynja hafi þegar skilað þeim árangri sem hægt er að ná með sérstökum aðgerðum af hálfu opinberra aðila?“ spyr Einar.

Kveðst hann ekki draga það í efa að launamismunun á grundvelli kynferðis þekkist og ekki komi sér á óvart í slíkum tilfellum að oftar halli á konur en karla. „Slíkt er alltaf ólíðandi og ólöglegt. Nánast allir sem tala um kynbundinn launamun sem staðreynd virðast ganga út frá því að bara halli á konur,“ segir Einar en svo sé ekki raunin.

Segir hann að munurinn sem haldið er fram að sé til staðar sé það lítill að það væri „tölfræðilegt kraftaverk“ ef það hallaði alltaf á konur. Veltir hann því upp þeirri spurningu hvort gera megi þá ráð fyrir því að mismunun sem körlum er í óhag verði leiðrétt þar sem „þeir sem fjalla um þessi mál tala allir eins og alltaf halli á konur?“ 

„Það er vonlaust verk að ætla að leiðrétta meintan mun með almennum aðgerðum þegar ekki er um að ræða kerfisbundna mismunun; það er bara hægt að leiðrétta mismunun gagnvart tilgreindum einstaklingum,“ segir Einar.

Margt sláandi við umræðuna

Þykir honum þó hvað mest sláandi við umræðuna að þeir sem helst tali um þennan óútskýrða launamun kynjanna og þeir sem hafi til þess völd og segist ætla að gera eitthvað í málinu, séu ekki endilega að vinna að því að hækka laun kvenna þar sem það er hægt. Hjá borginni virðist til að mynda mikil vinna hafa verið lögð í að gera jafnréttisúttektir og áætlanir en úttektir á launamun kynja hafi almennt leitt í ljós lítinn mun nema hjá þeim „örfáu sem líklega eru með hæstu launin“.

„Jafnréttisfrömuðunum í stjórn borgarinnar virðist sem sé ekki hafa dottið í hug að hægt væri að stórauka launajafnrétti með því að hækka laun leikskólakennara sem nánast allir eru konur og sem almennt virðist álitið að séu á of lágum launum. Ekki er heldur minnst neitt á slíkar aðgerðir í núgildandi aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum,“ segir Einar.

Annað sem Einar segir sláandi við slíkar aðgerðaáætlanir er að nánast bara sé fjallað um kynjajafnrétti en varla minnst á launajafnrétti almennt. Í tilfelli aðgerðaáætlunar Reykjavíkurborgar sé á því aðeins ein undantekning sem fjalli um að gerð verði úttekt á hugsanlegum launamun milli fólks af erlendum uppruna og Íslendinga. „Öll mismunun í launum á ómálefnalegum forsendum, ekki bara vegna kyns, er ólögleg.  Samt er eins og yfirvöldum detti ekki í hug að hafa þurfi áhyggjur af slíkri mismunun nema bara varðandi kyn,“ segir Einar.

Varasöm skekkja þegar gögnum er slegið saman

„Ég er alls enginn sérfræðingur á þessu sviði. Ég er stærðfræðingur og vinn við stærðfræði en maður þarf enga stærðfræði- eða tölfræðilega menntun til þess að sjá ruglið í mörgum af þessum staðhæfingum,“ segir Einar. „Maður þarf enga menntun til þess að sjá að könnun þar sem að svarhlutfallið er 50% hún getur bara aldrei sagt nokkurn skapaðan hlut,“ segir Einar og vísar þar til skoðanakannana margra stéttarfélaga um launamisrétti.

Þá bendir Einar á að við gerð slíkra kannana beri að varast þversagnakennda fyrirbærið Simpsons-Paradox svokallaða en þess kunni að gæta í könnunum um launamisrétti. „Það snýst um þessa furðulegu staðreynd að það er hægt að vera með tvö fyrirtæki A og B, þar sem konur eru með hærri laun en karlar að meðaltali í báðum fyrirtækjunum. En ef gögnunum er slegið saman, þá eru allt í einu karlarnir komnir með hærri laun að meðaltali en konurnar,“ útskýrir Einar.

Vill hann þó ekki halda því fram að alltaf komi fram slík skekkja, en um leið og gögnum frá mörgum stofnunum eða fyrirtækjum sé slegið saman geti maður átt það á hættu að draga rangar ályktanir. „Í stuttu máli þá eru þessi gögn miklu vandmeðfarnari og það er miklu erfiðara að draga ályktanir sem hægt er að treysta en flestir virðast ætla,“ útskýrir Einar.

Launamisræmi mögulega að hverfa með nýrri kynslóð

Loks telur Einar margt benda til þess að launamunur kynjanna sé smátt og smátt að hverfa. „Það er alla vega þróun í átt frá því sem var og það er mjög augljóst enn þá að launamunur er gríðarlega mikill körlum í hag í efri aldurshópunum og svo minnkar hann eftir því sem neðar dregur,“ segir Einar.

„Auðvitað er launamisrétti algjörlega ólíðandi og það er sem betur fer ólöglegt. Og það þarf bara að taka á því alls staðar þar sem hægt er að sýna fram á að það sé til staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert