Hamingjusöm húsgögn

Hafsteinn, Agla og dóttir þeirra í versluninni við Seljalandsfoss en …
Hafsteinn, Agla og dóttir þeirra í versluninni við Seljalandsfoss en þau innréttuðu og smíðuðu húsgögnin. Ljósmyndir/Happie Furniture

Húsgagnasmíðastofan Happie Furniture hefur í nógu að snúast um þessar mundir en fyrirtækið átti afar hógværa byrjun. Happie Furniture varð til fyrir tilviljun þegar Hafsteinn Helgi, stofnandi og smiður hjá Happie, bjó til borð fyrir sig og unnustu sína og setti mynd af því á netið.

„Þetta byrjaði alveg óvart, í hreiðurgerðinni hjá okkur, við ákváðum að smíða húsgögnin sjálf. Ég hef verið að smíða sjálfur lengi. Ég gerði borð fyrir okkur og setti mynd á netið, síðan vildu vinir og annað fólk fá sambærileg borð,“ segir Hafsteinn.

Barneignir og borðasmíð

„Við bjuggum til fyrstu borðin bara inní eldhúsi hjá okkur, eldhúsborðið heima var vinnuborðið. Síðan voru 4 m² lausir úti í geymslu og við smíðuðum þar,“ segir Hafsteinn. Happie fluttist síðan af heimili þeirra og í bílskúr en nú eru þau með smíðastofu á Granda.

„Fyrirtækið fæðist í raun á sama tíma og Agla unnusta mín er í Listaháskólanum í arkitektúr og kemst að því að við séum að fara eignast barn. Hún er með fram í rauðan dauðann í bílskúrnum með kúluna. Hún er algjör snillingur í þessu og sér um fegurðina í hlutunum. Ég er sterkur í höndunum en hún er gæðastjórinn,“ segir Hafsteinn og bætir við að dóttir þeirra sé nú á leið á leikskóla og stutt í að Agla komi aftur á fullu inn í fyrirtækið.

Vill halda Happie persónulegu

Happie hefur tekið að sér ótrúlega mörg verkefni fyrir ýmis fyrirtæki s.s. Hilton-hótel, Eldhesta, Hagkaup, Forréttabarinn, ORG í Kringlunni, ásamt því að innrétta og smíða fyrir Axels bakarí á Akureyri og verslunina við Seljalandsfoss. Hafsteinn reynir þó eftir bestu getu að halda í smæð fyrirtækisins. „Ég hef reynt að láta þetta ekki stækka of mikið og hratt, þannig að þetta verði eitthvert slys. Ég reyni að hafa þetta persónulegt og skemmtilegt. Ég vil ekki búa til 1.000 borð á einu ári, ég væri frekar til í að gera 1.000 borð á 60 árum og hafa það bara fínt.“ Happie Furniture er meðal annars núna að smíða húsgögn fyrir bjórböðin sem Kaldi ehf. er að opna.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni, það er mjög öðruvísi,“ segir Hafsteinn og bætir við að það sé gleðin í þessu sem dregur hann áfram. „Við viljum bara búa til nákvæmlega draumaborðið sem hver og einn vill. Það er í raun og veru fegurðin í þessu.“

Stofuborð úr evrópskri eik frá Happie. Hafsteinn segir það geta …
Stofuborð úr evrópskri eik frá Happie. Hafsteinn segir það geta gert mikið fyrir heimilið að hafa hugguleg og persónuleg húsgögn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert