Ómannúðlegar refsingar voru enn við lýði á Kópavogshæli í upphafi 9. áratugarins og talsvert skorti á virðingu fyrir vistfólkinu. Þó að margt hafi breyst til batnaðar síðan þá, er enn margt ógert í málefnum fatlaðra. Þetta segja þeir Þóroddur Þórarinsson og Magnús Helgi Björgvinsson, tveir fyrrverandi starfsmenn á Kópavogshæli sem báðir hófu þar störf ungir, en lærðu síðan til þroskaþjálfa. „Þegar ég hafði menntað mig, þá sá ég að aðstæður voru langt frá því að vera boðlegar,“ segir Magnús þegar hann lítur til baka.
Hann hóf störf á barnadeild á Kópavogshæli árið 1984, þá rúmlega tvítugur. Þá höfðu verið gerðar talsverðar umbætur á starfseminni frá því sem áður var, fækkað hafði verið á deildum og betur hugað að því hvernig vistmenn áttu saman þegar raðað var á deildir og í herbergi. „En það var gríðarleg áhersla lögð á sparnað og starfsfólkið var gert mjög meðvitað um að alltaf þyrfti að vera að spara. Kópavogshæli var hluti af ríkisspítölunum og það var hugsað um þessa starfsemi á sama hátt og önnur sjúkrahús þar sem hægt væri að loka rúmum til að spara. Það var auðvitað ekkert hægt á Kópavogshæli; þetta var heimili fólksins.“
Þegar Magnús hóf þarna störf voru, að hans sögn, ýmsar óskráðar vinnureglur í gildi, sumar ómannúðlegar. „Til dæmis snerist matartíminn mikið um að láta vistfólkið borða eins hratt og mögulegt var svo starfsfólkið gæti komist í pásu. Svo var manni uppálagt að eyða ekki of miklum tíma í hvern og einn, það var gjarnan talað um að það mætti ekki „dúlla of mikið með fólkið“.
Magnús segir að á þessum tíma hafi ýmsum refsingum verið beitt gagnvart fullorðnu vistfólki. Algengt hafi t.d. verið að meina fólki, sem þótti ekki haga sér skikkanlega, um það sem því þótti gott, eins og t.d. kaffi. „Það voru ýmsar matarrefsingar í gangi. Svo voru sumir einfaldlega læstir lengi inni í herbergjum ef þeir voru æstir.“ Var einhver yfirmaður sem setti þessar reglur? „Ég veit það ekki, þetta hafði verið gert löngu áður en ég byrjaði þarna. En þetta fannst mér ógeðslegt og alger óvirðing við fólk. Spennitreyjur voru ekki notaðar þegar ég var þarna, en ég sá einu sinni för í gólfi eftir skrúfur og mér var sagt að þær hefði verið fyrir belti sem voru spennt yfir rúmin.“
Magnús segir að hafa þurfi í huga að á þessum tíma átti að koma fötluðu fólki fyrir einhvers staðar þar sem aðrir yrðu ekki varir við og það hafi mótað starfsemina. „Ég vann með fullt af frábæru fólki, sem gerði sitt besta við erfiðar aðstæður og litla hvatningu frá yfirmönnum. Margt af þessu var ungt fólk sem fór síðan í þroskaþjálfanám. En það var skortur á fagfólki og það setti mark sitt á starfsemina.“ Hver er staða þessa málaflokks í dag? Erum við að gera nógu vel? „Nei. Við eigum enn eftir að taka stór skref. Við hugsum oft um þetta fólk sem hóp og lausnirnar eru hópmiðaðar, en við þurfum að hugsa um þau sem einstaklinga.“
Eftir að Magnús hafði lokið þroskaþjálfanámi stóðu hann og nokkrir aðrir fagmenn fyrir breyttum vinnubrögðum og viðhorfum á Kópavogshæli og segir hann að það hafi borið skjótan árangur. Einn úr þeim hópi er Þóroddur Þórarinsson þroskaþjálfi sem hóf störf á Kópavogshæli árið 1980 þegar hann var tvítugur nýstúdent. „Sumt ofbeldið, sem sagt er frá í skýrslunni, rímar við það sem ég heyrði frá eldri starfsmönnum, en ég sá það ekki sjálfur. Annað var ennþá í gangi þegar ég byrjaði að vinna þarna. Til dæmis var vatni sprautað á fólk til að fá það til að hætta tiltekinni hegðun. Ég man t.d. eftir að þessu var beitt til að fá mann, sem barði höfðinu ítrekað í vegginn, til að hætta því. Þetta var algerlega út í hött. Ef fólk er það illa statt af einhverjum ástæðum að það lemur höfðinu í vegg, þá hættir það því ekkert þó að það fái á sig vatn.“
Önnur refsing, sem Þóroddur minnist er að vistmenn voru læstir inni í herbergjum sínum í allt að tíu klukkustundir og höfðu þá hvorki aðgang að salerni né vatni.
Spurður hvers vegna starfsfólkið hafi komið svona fram við vistfólkið, segir hann líklega ekkert eitt svar við því, en það megi að einhverjum hluta skýra með skorti á starfsfólki og fagmennsku. Á sumum deildum hafi tveir starfsmenn séð um 15 vistmenn, suma með miklar fatlanir og lítið annað verið gert fyrir fólk en að koma því á fætur. „Ég man eftir því að einu sinni ætluðum við að fara með fólkið í gönguferð og þá spurði einn starfsmaðurinn: Af hverju ætti ég að gera það, ég er hérna á algerum lágmarkslaunum.“
Hann segir að starfsemin hafi verið mjög misjöfn eftir deildum. „Á einni deildinni var t.d. opið salernissvæði þannig að allir gátu séð þann sem var á klósettinu, bæði konur og karlar, og allir sáu hver var í baði. Það var virkilegt áfall fyrir mig að upplifa þetta algera virðingarleysi,“ segir Þóroddur.
Hann hætti á Kópavogshæli árið 1985 og kom síðan aftur til starfa árið 1990 og vann þar til 2002. Síðan þá hefur hann starfað sem þroskaþjálfi, m.a. veitt sambýlum forstöðu. Þóroddur segist vona að birting skýrslu vistheimilanefndar verði til þess að fram fari opinská umræða um aðstæður fatlaðra og að hún leiði til góðs og segir málaflokkinn síður en svo vera í ákjósanlegum farvegi. „Hvernig skyldi fólk eftir 30 ár sjá ástandið eins og það er núna? Við erum t.d. að bjóða fötluðu fólki búsetuúrræði sem henta því engan veginn og það eru áralangir biðlistar eftir lögbundinni þjónustu. Stefna Reykjavíkurborgar, um að leggja niður herbergjasambýli og taka upp íbúðakjarna, lítur mjög fallega út á blaði. En það er ekki verið að framkvæma hana og þó að það sé búið að loka stórum stofnunum eins og Kópavogshæli, þá er ekki þar með sagt að stofnanamenning hafi lagst af.“