Alltaf mælanlegur kynbundinn launamunur

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir ótal kannanir hafa sýnt fram …
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir ótal kannanir hafa sýnt fram á kynbundinn launamun. mbl.is/Golli

Þrátt fyrir mismunandi aðferðafræði og mismunandi tölulega útreikninga er svarið samt alltaf já, það er mælanlegur kynbundinn launamunur. Þetta segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, en athygli vakti í síðustu viku að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra efaðist í grein í árshátíðarriti lögfræðinema um tilvist kynbundins launamunar.

„Ótal kannanir hafa sýnt fram á kynbundinn launamun,“ segir Kristín og kveður 5% sem dómsmálaráðherra nefnir vera lægstu töluna sem nefnd sé í þessu sambandi. „Það hafa verið birtar tölur alveg upp í 17-18%, ef síðustu 10 ár eru skoðuð, og stéttarfélög á borð við VR og SFR hafa árlega gert sambærilegar kannanir, sem hafa undanfarin ár sýnt í kringum 10-11% launamun.“

 Vandi að aðferðafræðin er ekki samræmd

„Okkar vandi er að aðferðafræðin er ekki samræmd,“ segir Kristín og kveður rétt hjá þeim Einari Steingrímssyni stærðfræðingi og Helga Tómassyni tölfræðingi, sem báðir hafa gagnrýnt reikniaðferðir, að það skipti máli hvaða breytur séu notaðar. „Vandinn er að það hafa verið notaðar mismunandi aðferðir og þess vegna eru niðurstöðurnar svona mismunandi.

Í þeirri aðgerðaráætlun sem unnið er að núna á vegum velferðarráðuneytisins er hins vegar eitt af því sem á að gera að koma sér saman um ákveðna aðferðafræði til þess að mæla þetta,“ bætir hún við.

Kristín bendir á útreikninga Hagstofunnar frá því síðasta haust, sem byggð var á aðferðafræði Evrópsku hagstofunnar. „Evrópusambandið hefur komið sér saman um ákveðna aðferðafræði þar sem þeir mæla tímakaup og þetta reiknaði Hagstofan út hér á landi. Útkoman var að launamunurinn hér væri um 17% og svipaður og í Evrópulöndunum. Er þetta bara eitthvert rugl? Vita þessir spekingar þeir Einar og Tómas meira en þessir hagfræðingar og tölfræðingar sem hafa komið sér saman um þessa aðferðafræði?“ segir Kristín og varpar fram þeirri spurningu hvort við verðum ekki að treysta á Hagstofu Íslands.

Sömu laun fyrir sömu störf og mat á mikilvægi starfa

Kristín segir ýmsar breytur, m.a. fjölskyldustærð, umdeildar varðandi kynbundinn launamun. Aðrar breytur séu lítt umdeildar varðandi óútskýrðan mun sem helst skýrist með kyni, s.s. aldur, menntun og starfsreynsla. 

Þegar rætt er um kynbundinn launamun sé hins vegar í fyrsta lagi verið að að bera saman laun fyrir nákvæmlega sama starf, til dæmis laun tveggja verkfræðinga hvors af sínu kyninu eða laun tveggja lækna og hvort þau séu sambærileg.

„Næsta spurning snýr svo að mati á störfum,“ segir Kristín og nefnir þar sem dæmi lækni, hjúkrunarfræðing og sjúkraliða og hvernig störf þeirra eru metin. „Þar komum við inn á það hvernig ýmis störf kvenna voru lágt metin og ekki síst þau störf sem urðu til í framhaldi af því sem var gert inni á heimilunum.“ Hún bendir á að ekki þurfi að fara langt aftur í tímann til að finna dæmi um að verkakonur hafi haft allt að helmingi lægri laun en karlar fyrir sömu störf.  

„Þessi launamunur er mjög gamall og rótgróinn,“ bætir hún við.

„Þarf að taka inn í dæmið hvers vegna það er svona mikill munur. Hvers vegna vinna karlar meira? Hvers vegna vinna þeir lengur og af hverju eru konur frekari í hlutastarfi og hvað segir þetta um aðstæður karla og kvenna í þjóðfélaginu? Þarna er verulegur launamunur.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert