Fjöldi launakannana og rannsókna liðinna ára og áratuga staðfestir að karlar og konur njóta ekki sömu launa fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Launamunur sem ekki verður skýrður með öðru en kynferði er staðreynd hér á landi, þótt deilt sé um hve mikill munurinn er. Þetta segir í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Kemur þar fram að fjölmargar kannanir og rannsóknir hafi verið gerðar á kynbundnum launamun hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Allar eigi þær það sammerkt að mæla slíkan mun konum í óhag, þótt hann sé mismikill eftir könnunum.
„Er þá átt við þann launamun sem eftir stendur óútskýrður þegar tekið hefur verið tillit til allra málefnalegra ástæðna sem skýrt geta mun á launum, s.s. starfshlutfalls, fjölda vinnustunda, vinnutíma, menntunar, mannaforráða o.s.frv.,“ segir í tilkynningunni.
„Launarannsókn Hagstofu Íslands (árið 2015) sýnir að þegar borin eru saman regluleg laun karla og kvenna, þ.e. laun fyrir dagvinnu, hafa karlar að jafnaði 17,4% hærri laun að meðaltali en konur. Í þessum samanburði er ekki leiðrétt fyrir launamun sem skýra má með málefnalegum breytum, s.s. menntun og mannaforráðum o.fl. Þegar horft er til heildarlauna mælist munurinn enn meiri, eða 21,5% körlum í vil.
Athygli vekur að óleiðréttur launamunur eykst með aldri. Einnig kemur fram að fleiri konur en karlar eru með háskólapróf en karlar hafa mannaforráð í meira mæli. Í aldurshópnum 18–27 ára á almennum markaði voru karlar með 5% hærri laun en konur, en munurinn var aftur á móti orðinn 23% í aldurshópnum 58–67 ára. Konur á opinbera markaðnum í aldurshópnum 18–27 ára voru með 3% hærri laun en karlar í sömu stöðu, en launamunurinn var hins vegar 22% körlum í vil í elsta aldurshópnum.“