Sjúkraskrár allra 48 barnanna af Kópavogshæli, sem ekki höfðu skilað sér til vistheimilanefndar, eru komnar í leitirnar. Eins og kom fram í gær voru skýrslurnar ekki týndar, heldur reyndist talsvert flókið að finna þær.
Landspítali fékk lista með nöfnum 48 barna frá vistheimilanefnd í gær þar sem óskað var eftir að athugað væri hvort einhver gögn væru til um þau nöfn.
Vistheimilanefnd hafði áður óskað eftir gögnum frá Landspítala en hafði ekki nafnalista yfir þá sem voru vistaðir á Kópavogshæli. Nafnalistinn hefur orðið til í vinnslu nefndarinnar en þegar leita á að sjúkraskrám þarf að vera hægt að leita að nafni og fæðingardegi.
Vistheimilanefnd er með 178 nöfn á skrá en ekki er hægt að fullyrða að vistmenn hafi ekki verið fleiri.