Þroskaþjálfafélag Íslands segir ábyrgðina á málefnum fatlaðra vera hjá velferðarráðuneytinu og sveitarfélögunum. Þeim beri að sinna innra eftirliti með starfi stofnana. Mikið vanti upp á menntun þeirra sem starfa á heimilum fyrir fatlaða og launin skammarlega lág.
Þetta er meðal þess sem segir í ályktun sem félagið hefur sent frá sér í tilefni útgáfu skýrslu vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli 1952 -1993.
„Þroskaþjálfafélag Íslands fagnar útkomu skýrslu vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli 1952 – 1993 og gefur hún fullt tilefni til að kryfja til mergjar stöðuna eins og hún er í dag í málaflokki fatlaðra. Þroskaþjálfafélag Íslands telur mikilvægt að þeir sem stýra og bera ábyrgð á úrræðum fyrir fatlað fólk þurfi að hafa menntun, þekkingu og reynslu við hæfi. Þar sem um er að ræða þá aðila sem bera faglega ábyrgð á starfseminni er mikilvægt að viðkomandi hafi sérhæfða þekkingu á málefnum fatlaðs fólks, séu vel að sér í gildandi hugmyndafræði, þekki réttindi fólks og geti mótað viðhorf undirmanna sinna til starfsins og notendanna. Annað er óásættanlegt!
Gæði þjónustunnar ræðst af skipulagi hennar, stýringu og framkvæmd. Þroskaþjálfar eru eina háskólamenntaða fagstéttin sem sérstaklega hefur menntað sig til þess að starfa með fötluðu fólki. Þroskaþjálfar hafa því víðtæka og hagnýta þekkingu á stefnumótun, skipulagi og framkvæmd heildrænnar þjónustu annars vegar og á einstaklingsmiðaðri þjónustu hins vegar, óháð aldri og aðstæðum fólks. Það er álit Þroskaþjálfafélags Íslands að hlutfall fagmenntaðra starfsmanna verði að haldast í hendur við gæði þjónustunnar sem verið er að veita.
Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málaflokki fatlaðra en hún skal samt sem áður hafa verið unnin í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Einnig ber þeim að hafa samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks.
Ráðuneytið ber ábyrgð á því að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og þannig sjá til þess að þjónusta við fatlað fólk sé í samræmi við markmið settra laga, reglugerða og reglna og þá þannig að réttindi fólks séu virt.
Hvert sveitarfélag fyrir sig ber ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, og á það bæði við um gæði þjónustunnar sem og kostnað vegna hennar. Enn fremur eiga þau hafa hafa innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar.
Í reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu er sett fram hvernig framkvæmd þjónustu á heimilum fatlaðs fólks eigi að vera, að skipulagt samstarf eigi að vera milli þeirra sem nota þjónustuna, þjónustuaðila og aðstandenda, sé sá sem fær þjónustuna samþykkur því. Einnig er tiltekið að sá sem hefur mannaforráð og ber faglega ábyrgð á daglegu starfi með fötluðu fólki á heimilum þess skuli hafa þekkingu og reynslu af starfi með fötluðu fólki og menntun til slíkra starfa ef mögulegt er. Þetta þýðir að það er hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvort sett eru menntunarskilyrði við ráðningu forstöðumanns á heimili fatlaðs fólks.
Þar sem hvert sveitarfélag ber ábyrgðina, bæði á skipulagi, framkvæmd, gæðum og kostnaði þjónustunnar er ljóst að horft er í hverja krónu. Það er reynsla Þroskaþjálfafélags Íslands að sum sveitarfélög hafi ekki metnað að ráða hæft, fagmenntað fólk. Þá veiti þau þá þjónustu sem hægt er að komast upp með, með sem minnstum tilkostnaði þar sem hagræðingarsjónarmið eru höfð að leiðarljósi. Þeim er í sjálfsvald sett hversu hátt hlutfall af fagmenntuðu fólki starfar á heimilum fatlaðs fólks. Menntunarstig starfsmanna í málaflokki fatlaðra er almennt lágt. Þroskaþjálfafélag Íslands telur það fullljóst að gap er á milli laga, reglugerða og svo framkvæmda hjá sveitarfélögunum. Þetta gap þarf að brúa sem allra fyrst. Það er ekki nægjanlegt að setja fram metnaðarfulla löggjöf en fylgja henni svo ekki eftir af fullum þunga.
Stjórnvöld verða að setja fjármagn í þjónustuna í samræmi við þörfina og lagaskyldu í málaflokki fatlaðs fólks. Gæðaþjónustu þarf til að framfylgja lögum, reglugerðum og mannréttindasáttmálum til hins ýtrasta og ætti það að koma fram í metnaðarfullri stefnumótun sem og framkvæmd hvers sveitarfélags fyrir sig. Sveitarfélög eiga að sjá sér hag í því að hafa hátt hlutfall fagfólks til að tryggja að gildandi hugmyndafræði og öll þau mannréttindi móti viðhorf allra starfsmanna sem þjónusta fatlað fólk hvar sem er.
Alþingi þarf að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttinda fatlaðs fólks þar sem ekki er nægjanlegt að fullgilda hann.
Laun þeirra sem starfa í þjónustu við fatlað fólk eru skammarlega lág og er mikil starfsmannavelta í málaflokknum tilkomin vegna lágra launa og gífurlegs álags. Úr þessu þurfa yfirvöld að bæta.“