„Þetta staðfestir þá gagnrýni sem var haldið fram að þessi eining, sem greinilega var mjög arðbær, var seld langt undir eðlilegu verði,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
Á aðalfundi Borgunar sem haldinn verður síðdegis á morgun mun stjórn félagsins leggja til að greiddur verði allt að 4,7 milljarða króna arður til hluthafa. Katrín segir að það liggi ljóst fyrir að þeir sem keyptu hlut Landsbankans á sínum tíma hljóti að vera að fá þann hlut rúmlega til baka í gegnum arðgreiðslurnar.
Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Borgunar eru eigendur félagsins þrír: Íslandsbanki með 63,47% hlut, Eignarhaldsfélagið Borgun sem er nú skráð fyrir 29,38% hlut og BPS sem skráð er með 5% hlut. Hlutur Borgunar var áður í eigu Landsbankans sem seldi Borgun hlutinn í lok árs 2014.
„Það er tvennt sem ég vek athygli á í þessu. Þetta vekur mann til umhugsunar um verklag ríkisins við sölu á ríkiseignum en það er búið að boða hér umfangsmikla bankasölu, svo ég taki það sem dæmi,“ segir Katrín.
„Það má ekki verða eitthvert „bankaoutlet.“ Þetta sýnir það svart á hvítu að þessi gagnrýni átti við rök að styðjast og ríkið verður að gæta sín við sölu eigna þannig að það sé verið að gæta hagsmuna almennings í landinu,“ segir Katrín ennfremur og bætir við að það sé mikilvægt að menn gæti hófs.
„Ég tel að í samfélaginu sé umtalsverð eftirspurn eftir því að menn gæti hófs og tel mikilvægt að atvinnulífið taki þá umræðu hjá sér. Hvort það telji virkilega að það sé virkilega eftirspurn eftir svona svimandi háum arðgreiðslum og hvort það sé ekki eðlilegt að fyrirtækjaeigendur sýni ákveðna ábyrgð í því að halda hér efnahagslegum stöðugleika. Hluti af því er að gæta hófs í svona málum.“