Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness, þar sem fellt var úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið Vogar gaf út til Landsnets vegna Suðurnesjalínu 2.
Í málinu höfðu nokkrir einstaklingar og tvö fyrirtæki krafist þess að ógilt yrði ákvörðun sveitarfélagsins, frá því í mars 2015, um að veita Landsneti umrætt framkvæmdaleyfi.
Reistu þau kröfu sína á því að við meðferð málsins hefðu verið brotnar ýmsar reglur laga um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslaga og stjórnsýslulaga. Meðal annars hefði ekki verið rannsakaður sem skyldi, sá kostur að leggja línuna í jörðu en ekki í lofti.
Hæstiréttur leit í málinu til fyrri dóma réttarins, og að virtum reglum laga um mat á umhverfisáhrifum og skipulagslaga, taldi rétturinn að sýnt væri fram á að jarðstrengur hefði getað komið til greina sem framkvæmdarkostur.
Því hefði borið að gera grein fyrir honum í tillögum og matsskýrslum í matsferlinu og bera hann saman við annan eða aðra framkvæmdarkosti. Það hefði ekki verið gert, að öðru leyti en því að látið hefði verið nægja að vísa til almennra sjónarmiða um kosti og galla jarðstrengja.
Matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2, og álit Skipulagsstofnunar um skýrsluna, gátu því ekki verið lögmætur grundvöllur ákvörðunar sveitarfélagsins um veitingu framkvæmdaleyfisins.
Landsnet skaut málinu til Hæstaréttar eftir að héraðsdómur kvað upp dóm sinn. Hann hefur nú verið staðfestur, eins og áður sagði.