Farið fram á allt að 6 ára fangelsi

Bræðurnir eru ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í ágúst. Myndin …
Bræðurnir eru ákærðir fyrir skotárás í Fellahverfi í ágúst. Myndin er frá aðalmeðferð málsins í janúar. mbl.is/Golli

Aðalmeðferð í skotárásarmálinu í Fellahverfi frá 5. ágúst í fyrra lauk í héraðsdómi í dag. Lögð var fram auka rannsóknarskýrsla lögreglunnar sem dómari hafði óskað eftir á fyrri stigum aðalmeðferðarinnar í janúar auk þess sem eitt vitni var yfirheyrt. Dómari sagðist gera ráð fyrir dómi í málinu fljótlega en lofaði honum þó ekki í næstu viku.

Í málinu er tekist á um atburði fyrir utan söluturninn Leifasjoppu umrætt kvöld, en bræðurnir hafa viðurkennt að hafa báðir hleypt af haglabyssu fyrir utan söluturninn. Þeir segjast þó ekki hafa komið með byssuna á staðinn, heldur hafi hún verið í eigu einstaklinga í öðrum hópi sem hafi ógnað þeim um kvöldið.

Segja hóp manna hafa ógnað sér

Lýstu mennirnir því á fyrri stigum aðalmeðferðarinnar þannig að þeir hefðu verið staddir í Leifasjoppu og fengið símtal frá móður þeirra um að fyrir utan heimili hennar skammt frá sjoppunni hefðu menn verið að leita bræðranna. Þá hefðu þeim borist hótanir með SMS-skilaboðum úr óþekktu númeri. Seinna hefði komið til átaka milli þeirra og manna úr hinum hópnum fyrir utan sjoppuna. Hefði einn mann­anna í hinum hópn­um sótt af­sagaða hagla­byssu inn í bíl og gengið í átt að þeim en eldri bróðurn­um, Rafal Ma­rek Naba­kowski, hefði tek­ist að af­vopna hann.

Yngri bróðir­inn, Marc­in Wieslaw Naba­kowski, hefði þá tekið við byss­unni af bróður sín­um, en hann er ákærður fyr­ir að hafa beint hagla­byss­unni að bif­reið á bíla­stæði við Rjúpna­fell og hleypt af skoti af um tíu metra færi sem hæft hafi hurð og hliðarrúðu bíls­ins með þeim af­leiðing­um að skemmd­ir hafi orðið á hurðinni. Hliðarrúðan hafi brotnað og kon­an, sem var farþegi í fram­sæti bif­reiðar­inn­ar, fengið gler­brot yfir sig og hlotið minni­ hátt­ar skurði. Í ákæru málsins er hann sagður með þessu hafa stefnt lífi og heilsu fólksins í bifreiðinni í „stór­felld­an háska á ófyr­ir­leit­inn hátt“.

Dómari óskaði eftir auka rannsóknarskýrslu

Viðurkenndi Rafal að hafa hleypt skoti úr byssunni en það hefði ekki verið af ásettu ráði. Hann hefði haldið byssunni upp í loftið til að hræða fólkið úr hinum hópnum og óvart hleypt af skoti. Marcin viðurkenndi að hafa hleypt af skoti sem fór í bílinn, en hann hefði hins vegar miðað byssunni niður á við og hafi ekki ætlað að hæfa bílinn með skotinu heldur skjóta í jörðina. Hann hefði ekki ætlað að valda nokkrum skaða.

Vegna þess að óljóst var hvernig byssan sem um ræðir í málinu hefði farið úr vörslu skráðs eiganda hennar og í hendur þeirra sem beittu vopninu óskaði dómari eftir því í janúar að lögreglan rannsakaði það atriði sérstaklega og var aðalmeðferð frestað á meðan. Skýrslan var lögð fyrir dóminn í morgun en saksóknari staðfesti við mbl.is að það atriði hefði ekki nema að takmörkuðu leyti upplýsts.

Orðið nógu skrítið þinghald

Í morgun mætti einnig starfsmaður söluturnsins fyrir dóminn, en hann hafði sést horfa út um glugga söluturnsins þegar atburðirnir áttu sér stað. Lítið var hins vegar að græða á framburði hans fyrir dómi í dag og flæktu tungumálaörðuleikar skýrslutökuna yfir honum talsvert. Þurfti dómari nokkrum sinnum að ítreka að þinghald færi fram á íslensku. Sagði hann þinghaldið vera orðið nógu skrítið nú þegar og því þyrfti að halda því á íslensku en ekki öðru tungumáli til að flækja það ekki enn frekar.

Vitnið hafði áður sagt í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði séð einhverja veitast að Rafal og Marcin auk þess að mikill fjöldi manns hefði verið fyrir utan söluturninn og verið á eftir bræðrunum. Við skýrslutökuna fyrir dómi sagðist hann hins vegar ekki hafa séð neitt og að upplýsingar hans hefðu að mestu komið frá því sem fólk inni í söluturninum hefði sagt þegar atvikið átti sér stað. Hann gaf þó óljóst í skyn að einhverjir hefðu virst vera á eftir þeim bræðrum. Þá ítrekaði hann margoft að hafa ekki heyrt neina skothvelli.

Farið fram á 5-6 ár og 3-4 ár yfir bræðrunum

Málflutningsræður saksóknara og verjenda í málinu höfðu áður farið fram þar sem saksóknari fór fram á 5-6 ára fangelsi yfir Marcin og 3-4 ára fangelsi yfir Rafal. Ítrekaði hann gerðar kröfur.

Áður en dómþingi var slitið vísuðu verjendur í framburð vitnisins sem hafði mætt í dag og sögðu að ljóst væri að bræðrunum hefði stafað hætta af um 40-50 manns sem hefðu verið á eftir þeim og hefðu verið fyrir utan sjoppuna á þessum tíma. Þyrfti að meta viðbrögð þeirra í því ljósi, en lögðu málið að öðru leyti í dóm.

Miðað við orð dómara má gera ráð fyrir dómur falli í málinu á innan við tveimur vikum. Yngri bróðirinn situr enn í gæsluvarðhaldi frá því í ágúst vegna málsins á grundvelli almannahagsmuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert