Draga þarf lærdóm af mistökunum

Kvennadeild Kópavogshælis sem var reist á sjötta áratug síðustu aldar. …
Kvennadeild Kópavogshælis sem var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands segir nauðsynlegt að draga lærdóm af þeim mistökum sem urðu vegna meðferðar á íbúum Kópavogshælis og að umræðan um það sem gerðist hafi verið þörf.

Í ályktun stjórnarinnar segir að alvarleg undirmönnun hafi verið viðvarandi á stofnunum fyrir aldraða og fatlaða í áraraðir og það hafi komið niður á þjónustu við þá sem oft á tíðum minnst mega sín.

Hún segir að aðeins sé boðið upp á 20-30% faglærða starfsmenn á flestum öldrunarheimilum landsins og hvetur stjórnvöld og stjórnendur slíkra heimila til að bregðast við.

Ályktunin í heild sinni:

„Félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands telur framkomuna skýrslu og þá umræðu sem verið hefur um meðferð samfélagsins á íbúum Kópavogshælis fyrr á tímum mjög þarfa og bendir á að nauðsynlegt er að draga lærdóm af slíkum mistökum. Sífellt þarf að huga að þjónustu við þá sem gera litlar kröfur fyrir sjálfa sig og eiga fáa talsmenn.

Þjónustan, aðhlynningin, umönnunin og hjúkrunin við aldraða og fatlaða á stofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé er veitt af mjög veikum mætti. Alvarleg undirmönnun hefur verið viðvarandi í áraraðir, sem komið hefur niður á allri þjónustu við þá sem oft á tíðum minnst mega sín. Einungis er boðið upp á 20-30% faglærðra starfsmanna á flestum öldrunarheimilum landsins, sem að sjálfsögðu leiðir til lakari þjónustu eins og dæmin sanna.

Stjórn Sjúkraliðafélagsins hvetur stjórnvöld og stjórnendur nefndra heimila til að leggja metnað í þennan rekstur og láta það ekki gerast að innan fárra ára komi fram enn ein svört skýrsla um þjónustu við þá sem minnst mega sín. Bregðumst við núna, því okkur ber skylda til að læra af mistökum forvera okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert