Lýst yfir neyðarástandi í vélinni

Um 160 farþegar voru um borð í flugvél Icelandair sem …
Um 160 farþegar voru um borð í flugvél Icelandair sem lenti í þriðju tilraun í Bretlandi vegna vonskuveðurs. mbl.is/Árni Sæberg

Lýst var yfir neyðarástandi um borð í farþegaflugvél Icelandair á leið til Manchester í morgun því eldsneytið var orðið af skornum skammti. Flugvélin náði að lenda í þriðju tilraun en slæmt veður var í Bretlandi á þessum tíma.    

„Það var vonskuveður í Manchester og vélin þurfti frá að hverfa, þá var farið til Liverpool og reynd lending. Þar var enn meiri ókyrrð í lofti og því var aftur farið til Manchester,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. 

Þar sem flugvélin hafði reynt í tvígang að lenda var lýst yfir neyðarástandi því eldsneytið var orðið lítið og vélin sett í forgang í þriðju tilraun sinni til lendingar. Að lokum gekk lendingin nokkuð snurðulaust fyrir sig í Manchester. Um 160 farþegar voru um borð í vélinni. Guðjón segir að þetta hafi eflaust verið óþægilegt fyrir farþegana en þetta hafi gengið vel að lokum. 

Lítilleg seinkun varð á næsta flugi vélarinnar aftur til Íslands en talsverð seinkun varð á flugi frá Bretlandi í dag vegna óveðursins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert