„Þungbært“ að sjá brot á mannréttindum

Verjendur sakborninga í Marple-málinu í héraðsdómi. Kristín Edwald, verjandi Magnúsar …
Verjendur sakborninga í Marple-málinu í héraðsdómi. Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að sjálfsögðu ánægð með niðurstöðu Hæstaréttar. Á sama tíma er þungbært að horfa upp á að þessi grundvallarmannréttindi hafi verið brotin á fólki fyrir héraðsdómi,“ segir Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar í Marple-málinu. 

Dóm­ur Héraðsdóms Reykja­vík­ur í máli ákæru­valds­ins gegn Hreiðari Má Sig­urðssyni, fyrr­ver­andi for­stjóra Kaupþings, Magnúsi Guðmunds­syni, fyrr­ver­andi banka­stjóra Kaupþings í Lúx­em­borg, og fleirum, var ómerkt­ur af Hæsta­rétti fyrr í dag. Ástæðan var sú að einn dómari í málinu var vanhæfur.

Í október árið 2015 hafði héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að umræddur dómari væri ekki vanhæfur. Kristín bendir á að Hæstiréttur sé „mjög afdráttarlaus í sinni niðurstöðu“. 

Kristín segir jafnframt að það sé réttur allra að flytja mál sitt fyrir óhlutdrægum dómstól. Sá réttur er hvort tveggja verndaður í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu.

Mál­inu er vísað aft­ur til héraðsdóms þar sem aðalmeðferð málsins fer fram að nýju. Skipa þarf meðal annars nýja dómara og skýrslutaka þarf að fara fram að nýju. 

Spurð hvenær það verði sagðist Kristín ekki geta svarað því. Hún taldi það geta tekið talsverðan tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert