Veðurstofa Íslands varar við stormi eða roki um allt land í dag og talsverðri eða mikilli rigningu suðaustanlands.
Vaxandi suðaustanátt verður í morgunsárið, fyrst á suðvesturhorninu. Síðdegis má búast við að stormur verði, 20 til 28 m/s þar. Vindhviður gætu náð allt að 40 m/s. Á Norður- og Austurlandi hvessir síðdegis og viðbúið er að óveðrið verði mest þar annað kvöld.
Veðurstofan varar við slæmu skyggni á vegum, en ferðaveður verður almennt slæmt.
Fyrst um sinn fylgir óveðrinu snjókoma og él, en þegar líða tekur á daginn hlýnar og fer að rigna. Úrkoman verður um allt land, þó minnst á Norðurlandi.
Í kvöld lægir mjög og hlýnar með suðlægri átt og skúrum. Hiti verður á bilinu eitt til sjö stig.