Íslendingurinn sem kennir ensku í fínum einkaskóla

Snorri Kristjánsson kennir enskar, klassískar bókmenntir og leiklist.
Snorri Kristjánsson kennir enskar, klassískar bókmenntir og leiklist. Ljósmynd/Ingibjörg Rósa

Heimavistarskóli fyrir drengi efnaðra fjölskyldna, eins og sjást oft í búningadrama frá BBC, er kannski eitthvað sem Íslendingar telja að tilheyri að mestu fortíðinni. En slíkir skólar eru enn við lýði í Bretlandi og við einn þeirra er það Íslendingur sem kennir nemendunum enskar, klassískar bókmenntir og leiklist. 

Snorri, rithöfundur, Kristjánsson er útskrifaður leikari frá LAMDA og reyndur uppistandari en tók kennarapróf í London meðfram kennslu fyrir nokkrum árum. „Það var samt mest litið til leiklistarreynslunnar þegar ég var ráðinn,“ segir hann meðan hann hellir upp á te handa mér á kennaraskrifstofunni. Hann var meðal 30 umsækjenda og virtist skapaður fyrir starfslýsinguna. „Aðstaðan hérna er ótrúleg, ég er með leikmyndahönnuð, ljósameistara, búningahönnuð og -deild þannig að þetta er á pari við gott áhugaleikfélag.“

Eiginkona Snorra, barnabókahöfundurinn Morag Hood, er skosk og eftir nokkur góð ár í London ákváðu hjónin að flytja nær fjölskyldu hennar í Edinborg sumarið 2015. Snorri var IB-enskukennari við Alþjóðlega skólann á Southbank, sem er talsvert öðruvísi en hefðbundnir heimavistarskólar en samt sem áður sótti Snorri um þetta eina starf, stöðu „head of drama“ við enskudeild hins virta Merchiston Castle School.

„Fyrsta leikritið sem ég setti upp með þeim var A View From a Bridge eftir Arthur Miller og á þessu skólaári var það The Importance of Being Earnest eftir Oscar Wilde. Þessi tvö setti ég bara upp eins og þau komu af kúnni en nú sit ég við að aðlaga Draum á Jónsmessunótt fyrir næsta leikár, því það verður að viðurkennast að Shakespeare var ekki að skrifa leikritin sín í gær og leikararnir þurfa að skilja innihaldið almennilega til að geta gert honum skil.“

Þótt það hafi þekkst á tímum Shakespeare að láta karlmenn leika kvenhlutverkin þá þarf Snorri ekki að grípa til þess við uppsetningu leikrita við drengjaskóla frekar en hann vill. „Við erum með systurskóla hér í Edinborg, St. George‘s School for Girls, og fáum lánaðar stelpur þaðan. Báðir skólarnir setja upp leikrit á haustönn og þau fá lánaða stráka hjá okkur á móti.“

Leikprufur eru haldnar í lok sumarannar, æfingar hefjast á haustin og leikritið er sýnt í sýningarsal skólans rétt fyrir jólafrí, vanalega þrjár sýningar sem fjölskyldur nemendanna og starfsfólk skólans fá að njóta.

Snorri Kristjánsson í skólanum.
Snorri Kristjánsson í skólanum. Ljósmynd/Ingibjörg Rósa

Stíf dagskrá

Nemendur við Merchiston Castle-skólann eru á aldrinum 7 til 18 ára og geta búið á heimavistinni frá 8 ára aldri og segir Snorri allt skipulag og stundatöflur talsvert öðruvísi en í ríkisreknum skólum. „Það eru þrjár annir, haustönn frá september til loka desember og svo vorönn frá janúar fram í miðjan mars. Þá er þriggja vikna páskafrí og svo sumarönn eftir það til loka júní. Þetta gerir u.þ.b. 33 kennsluvikur og því löng frí en þeim mun meiri vinna yfir önnina. Í einni kennsluviku eru þrír heilir dagar og þrír hálfir dagar. Samkvæmt vetrarstundatöflu er langur dagur t.d. frá klukkan 8 til 18 með tveggja klukkustunda ruðningsæfingu á milli. Þá eru sem sagt sex kennslustundir fyrir hádegi, eftir matinn er þeim öllum ruslað út í ruðning, svo aftur inn í þrjár kennslustundir fram að kvöldmat. Eftir hann er húsfundur, svo ein og hálf klukkustund af heimavinnu og svo frjáls tími fram að háttatíma.“ Sá litli hluti nemenda sem búa heima og stunda skólann sem dagskóla þarf að vera í skólanum fram yfir heimavinnutímann eftir kvöldmat svo þeir fara í raun aðeins heim til að eyða kvöldinu með fjölskyldu sinni og sofa í eigin rúmum.

„Á svokölluðum stuttum degi eru 6 kennslustundir, hádegismatur og svo tveggja tíma ruðningsæfing en eftir hana er tómstundatími frá kl. 16 til 18 þar sem þeir geta t.d. stundað leiklist eða rafmagnsverkfræði, verið í módelsmíði eða þess háttar.“ Snorri segir mikið lagt upp úr tómstundastarfi í skólanum og drengirnir því skyldugir til að vera skráðir í einhvern af þessum klúbbum á þessum tíma.

Helgarfríin eru síðan vanalega styttri en þau sem íslenskir nemendur og kennarar eru vanir. „Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar eru langir dagar, þriðjudagar, fimmtudagar og laugardagar hálfir dagar, ég kenni því fram að hádegi á laugardögum og svo er helgin einn og hálfur dagur. Þriðja hver helgi er hins vegar lengri því þá fara þeir heim til sín á föstudagseftirmiðdögum.“

Elsta húsið á skólasvæðinu, frá herragarðstímabilinu.
Elsta húsið á skólasvæðinu, frá herragarðstímabilinu. Ljósmynd/Ingibjörg Rósa


Auk leiklistarstarfsins kennir Snorri bókmenntir og ritun og allir kennarar þurfa að taka vakt í heimavistarhúsunum einu sinni í viku. Hann sýnir mér aðalkennslustofuna sína sem lítur nú bara út eins og hver önnur kennslustofa, veggirnir skreyttir með verkefnum og svo myndaskrítlum þar sem enska tungumálið fær að njóta sín, sem Snorri hengir upp til að fá útrás fyrir grínistann í sér og auðga um leið orðaforða og orðheppni nemenda sinna.

Það vekur athygli blaðamanns að nemendur fá ekki stuðning inni í kennslustund, hver kennari sér um sinn hóp einn en á móti kemur að í stærstu hópunum eru einungis 24 nemendur. „Það er raðað eftir getu í hópana þannig að stærstu hóparnir eru líka getumestu hóparnir, svo verða þeir minni eftir því sem erfiðleikarnir eru meiri og til dæmis eru bara fjórir í minnsta hópnum mínum.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert