Fannfergið sem féll í dag hefur stóraukið spurn eftir leigubílum og fækkað leigubílum á götum úti sem hefur valdið töluverðri bið hjá leigubílastöðvum Reykjavíkur. Þurfa viðskiptavinir Hreyfils og BSR nú að bíða í allt að klukkutíma eftir bíl.
Hjá BSR fengust þær upplýsingar að bið eftir bílum væri á bilinu 30 til 60 mínútur en hjá Hreyfli er biðin um 30 mínútur. Samkvæmt upplýsingum frá Hreyfli er biðin frekar að lengjast en styttast, en töluvert fleiri eru að hringja á eftir bílum í kvöld en önnur sunnudagskvöld á sama tíma og færri leigubílar eru á götum úti.